Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir iðnaðarráðherra ávarpaði Iðnþing Samtaka iðnaðarins í vikunni, en átatuga hefð fer yrir því að ráðherra iðnaðarmála taki til máls á þinginu. Jafnan hefur ráðherra þessa málaflokks kappkostað að hafa frá sem flestu mikilvægu fyrir iðnaðinn að segja við þessi tækifæri þar sem mörghundruð fulltrúar úr íslenskum iðnaði eru saman komnir.
En greinilega getur verið erfitt að bera marga hatta. Að þessu sinni talaði ráðherra iðnaðarmála lítið um iðnað en varði ræðutíma sínum einkum í að lýsa því hve íslensku hákólarnir eru aftarlega á merinni í alþjóðlegum samanburði. Reyndar var það vitað fyrir og hefur raunar legið ljóst fyrir árum saman. Háskólinn í Reykjavík telst vera númer 350 og Háskóli Íslands í kringum númer 500 í alþjóðlegum samanburði.
Þegar nýtt ráðuneyti var búið til fyrir Áslaugu Örnu í byrjun yfirstandandi kjörtímabils voru verkefni þess iðnaðarmál og háskólar, en vísindum var skeytt aftan við upptalninguna. Á því tæplega eina og hálfa ári sem liðið er frá myndun þessarar nýju vinstri stjórnar hefur lítið heyrst frá ráðuneyti Áslaugar Örnu og ekki er alveg vitað við hvað ráðherrann og samstarfsmenn eru að fást. Hefði því verið tilvalið fyrir hana að fjalla um málefni iðnaðarins á Iðnþinginu, en af mörgu merkilegu er þar að taka.
Áslaug Arna valdi að fjalla um háskólana og hve illa þeir standa í alþjóðlegum samanburði. Því miður er þetta ekki fréttnæmt. Á Íslandi eru reknir átta háskólar. Í Danmörku þykir hæfilegt að halda úti einum háskóla á hverja 500 þúsund íbúa. Á Íslandi er íbúafjöldinn innan við 390.000 þannig að hér er rekinn einn háskóli á hverja 49.000 íbúa.
Ráðherrann hefur komið því til leiðar að fá fjárveitingu á fjárlögum í sjóð til að úthluta úr til einstakra háskóla þannig að þeir geti aukið samstarf sitt. Fjárveiting þessi nemur tveimur milljörðum króna á ári af peningum skattgreiðenda. Sjóðasukk af þessu tagi er löngu úrelt. Á árum áður var það einmitt Sjálfstæðisflokkurinn sem lagði sig fram um að leggja niður ýmsa sjóði sem hann kenndi við Framsóknarflokkinn og státaði af því að hafa komið ýmsum þeirra fyrir kattarnef. Sjálfstæðismenn fundu upp orðið „sjóðasukk“ og hömpuðu því stoltir – enda prýðilegt heiti á vinnubrögðum af þessu tagi.
Vilji Áslaug Arna gera gagn í því ráðuneyti, sem var búið til fyrir hana, ætti hún að beita sér fyrir því að sameina íslenska háskóla, fækka þeim í tvo og auka með því slagkraft þeirra samhliða sparnaði við yfirstjórn og utanumhald. Hún gerir ekkert gagn með því að útdeila smáum upphæðum úr sjóði til að auka samstarf einstakra skóla.
Tilvalið væri að Háskóli Íslands ræki háskólann á Akureyri sem útibú og gerði svo listaháskólann, bændaskólann á Hólum og bændaskólann á Hvanneyri að deildum hjá sér. Á sama hátt gæti Háskólinn í Reykjavík tekið háskólann á Bifröst og háskólann Keili undir sína stjórn og rekið þá sem útibú eða deildir. Með þessu ykist slagkraftur þessara tveggja háskóla til mikilla muna og þeir ættu möguleika á að styrkja sig í framtíðinni í alþjóðlegum samanburði, sem vissulega er báborinn eins og fram hefur komið.
Auk þess myndi mikill kostnaður sparast við yfirstjórn, skrifstofuhald, bókhald, tölvuvinnslu og annað utanumhald. Einungis tveir rektorar væru þá á hæstu launum í stað átta. Sama gilti um fjölda annarra yfirmanna við stjórnun og umsýslu. Ríkissjóður er rekinn með hundruð milljarða halla á ári og því verður að spara þar sem það er unnt eins og í rekstri háskóla.
- Ólafur Arnarson