Íbúðir í fjölbýli hér á landi hafa að meðaltali stækkað úr 90 fermetrum í 105 fermetra á síðasta aldarfjórðungi, að því er fram kemur í athugun á vegum sérfræðinga Íbúðalánasjóðs.
Þetta kemur fram í viðtali við Ólaf Heiðar Helgason, hagfræðing á hagdeild Íbúðalánsjóðs í þættinum Heimilið á Hringbraut í kvöld, en hann fjallar um allt er lýtur að rekstri og viðhaldi heimilisins.
Ólafur segir margar skýringar vera á þessari stækkun íbúða, meðal annars auknar ráðstöfunartekjur almennings og aukin ásókn í fjölbýlishúsaíbúðir - og þá ekki síður breytingar á byggingareglugerð og skipulagi sem hafi ýtt undir aukinn fermetrafjölda.
Á móti komi að fjölskyldur fara heldur minnkandi hér á landi, mun fleiri búi nú einir og pör eignist nú mun færri börn en áður hefur tíðkast, en allt kalli þetta fremur á minni íbúðir en stærri.
Heimilið byrjar klukkan 20:00 í kvöld.