Í því felst kreppa kirkjunnar

Þegar ég ólst upp í fámennu byggðarlagi norðanlands man ég enn skýrt hve mér þótti leiðinlegt í messum.

Það var ekki prestinum að kenna. Presturinn var rómað ljúfmenni, greindur maður, hæfileikaríkur húmoristi og mikill fengur að honum fyrir byggðalagið.

En messa var einfaldlega þrúgandi athöfn fyrir barn, einkum að fara í kirkju um jólin. En það var lagt upp úr því. Í raun var krafa um skyldumætingu í sveitinni a.m.k. hvað varðaði jólamessuna. Þeir voru taldir upp undir kaffibolla og milli laufabrauða um jólin sem ekki höfðu mætt til guðsþjónustunnar. Gætti tortryggni gagnvart þeim hópi nema skýringar á fjarvistum væru því betri.

Þetta var á þeim árum þegar hermt var að aðeins einn krati og tveir kommúnistar byggju í Mývatnssveit. Það hlaut að vera skrýtið fólk, heyrði maður stundum á Vogatorfunni þar sem þrír kusu íhaldið en annars var talið að gervallar guðs- og lífsbjargir okkar sveitafólksins kæmu frá Framsóknarflokknum.

Svo var annað. Messunni var ekki lokið eftir að maður gekk út að lokinni athöfn, tók í hönd prestsins og fannst hálfpartinn að maður hefði snert Guð. Nei, ræða prestsins var líka rædd út og suður löngu eftir að athöfn lauk. Þegar biskup messaði í sjónvarpinu var ræða biskups einnig krufin. Á þessum árum var enda ekki mikið um álitsgjafa í samfélaginu. Prestar í heilagra manna tölu, líkt og læknar og margir fleiri.

En nú eru breyttir tímar.

Hefðbundnir fjölmiðlar birta enn helstu áherslur trúarleiðtoga eins og þær birtast í jólaræðum. En það hlýtur að styttast í því að jólaræðurnar verði ekki sjálfkrafa fréttaefni heldur verðir prestar að vinna fyrir athygliinni. Ummæli biskups um eitt og annað nú á dögum þykja nefnilega ekki hjá æ stærri hópi endilega neitt merkilegri en vel heppnaður status hjá listrænu en lítt þekktu ljóðskáldi á facebook.  Orð eru orð. Sum eru betri en önnur. Í æ ríkari mæli skiptir minna máli hver segir þau, heldur hvað er sagt.  

Prestarnir eru ekki lengur í hlutverki þeirra örfáu menntuðu andans manna sem sátu samkeppnislitlir að því að uppfræða fávísan almúgann á árum áður og sumpart halda honum saman.

Æ færri eru fávísir í samtímanum.

Í því felst ein kreppa kirkjunnar.

Ef kirkjan ætlar að blómgast verður hún einafaldlega að laða til sín yfirburðafólk. Kennivald hennar mun í framtíðinni liggja í því sem sagt verður - en ekki hver segir það.

Því kirkjan á í samkeppni við ótal predikanir út um allt núna. Þær eru misgóðar eins og gengur. En kirkjan situr ekki ein að predikunum lengur. Nú fær ein innblásin eldmessa á facebook e.t.v. 2000 læk og rústar biskupnum í umræðulegu tilliti - nema að biskup hitti á réttu orðin og réttu tímasetningarnar.

Hefur þjóðkirkjan hugað að því?

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)