Anna Kristjánsdóttir skrifar frá Tenerife:
Dagur 213 - Stofufangelsi?
Þetta eru skrýtnir tímar. Spænska ríkisstjórnin hefur lýst yfir hálfgerðri einangrun þjóðarinnar næstu vikurnar og þar á meðal einnig mér. Upphaflega átti bannið að ríkja frá miðnætti á sunnudagskvöld, en í gærkvöldi var ákveðið að flýta einangruninni og tók hún gildi síðastliðið miðnætti. Ég segi hálfgerðri einangrun því hér ríkir samkomubann. Bar-Inn er lokaður, væntanlega einnig Nostalgía og Bambú sem og aðrir veitinga og skemmtistaðir. Allar aðrar verslanir en matvöruverslanir og lyfjabúðir eru lokaðar.
Ég má ýmislegt. Ég má fara í matvöruverslun eða lyfjabúð, fara til læknis og aðstoða aldraða ættingja. Ég má mæta til vinnu, en hvað á ég að gera til vinnu? Ég nenni ekkert að vinna. Ég held að ég megi vera viðstödd við eigin jarðarför, en ekki annarra. Ég held að ég megi fara úr landi, en veit ekki hvort ég megi koma heim aftur. Ég er í reynd í hálfgerðu stofufangelsi.
Ég hafði hugsað mér að skreppa á Klakaskerið í fáeina daga í næstu viku. Tvö barnabörn eiga afmæli á þeim tíma og ég sakna fjölskyldunnar. Með tveggja vikna sóttkví við komu til Íslands er sá möguleiki ónýtur og ég fer hvergi. Vantar ekki einhverjum flugmiða til Íslands á vægu verði, báðar leiðir?
Sumt breytist ekki. Ég veitti því athygli að nokkrir harðsvíraðir sóldýrkendur gengu hér framhjá húsinu á leið sinni til strandar í morgun, Ég sé nú að sama fólk gengur til baka eins og það hafi verið rekið í burtu. Ég neyðist því til að leggjast á sundlaugarbakkann í dag. Þá virðast ferjurnar halda áætlun sinni í dag, að minnsta kosti Baldur og Sævar, en ég efa að Herjólfur V fái að sigla vegna samkomubannsins. Akraborgin er enn sem fyrr í sóttkví, afsakið þurrkví.
Annars nokkuð góð.