Forvörn: fólk og flugeldar

Forvarnaþátturinn Fólk og flugeldar er á dagskrá Hringbrautar í kvöld en þar svarar fagfólk og sérfræðingar því hvernig beri að haga sér í kringum flugelda og hvað beri helst að forðast í þeim efnum.

Meðal viðmælenda í þættinum, sem unninn er í samvinnu við Slysavarnafélagið Landsbjörg, er bráðalæknirinn Jón Magnús Kristjánsson sem útskýrir fyrir áhorfendum hvað mikilvægast sé að gera þegar slys henda á áramótum, en þar minnir hann á að snjór gerir oft illt verra ef kæla eigi brunasár; vatn við stofuhita geri þar mesta gagnið. Hann rekur einnig hvaða slys eru algengust þegar fólk kveikir á blysum, rakettum og skotkökum, en blessurnarlega hefur óhöppum fækkað á siðustu árum, þökk sé fræðslu og forvörnum, en nú er svo komið að allur almenningur notar hlífðargleraugu í návist flugelda, jafnt áhorfendur og þeir sem kveikja á þeim. Þá kemur fram í þættinum hversu mikilvægar heyrnarhlífar geta reynst í öllum þeim látum og hávaða sem fylgir sprenginum og bombum af öllu tagi, en notkun þeirra hefur færst í vöxt á síðustu árum.

Meðal annarra viðmælenda þáttarins eru Jónína Kristín Snorradóttir, verkefnisstjóri forvarna hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg sem fer yfir nauðsynleg öryggisatriði í þættinum og Smári Sigurðsson, formaður félagsins sem rekur sögu skotgleðinnar hér á landi og svarar því til hversu mikilvægur þáttur sala flugelda er fyrir rekstur björgunarsveitanna í landinu.

Fólk og flugeldar er á dagskrá Hringbrautar klukkan 20:00 í kvöld og verður endursýndur strax klukkan 21:00, svo og næstu daga og kvöld fram að áramótum.