Hildur Björnsdóttir, Eyþór Arnalds og Vörður krefjast afsagnar borgarstjóra vegna skýrslu um braggabyggingu sem fór fram úr áætlun. Morgunblaðið, þar sem Eyþór er sagður vera stærsti hluthafinn, hefur slegið þessu upp nokkrum sinnum undanfarna daga.
Varla kemur á óvart að Hildur og Eyþór nöldri út af þessari skýrslu en þau eru enn að sleikja sár sín eftir kosningarnar sl. vor en þá misheppnaðist þeim að ná völdum í Reykjavík. Fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík undir þeirra forystu er það næstlélegasta í sögunni.
Hildur, Vörður og Eyþór krefjast afsagnar borgarstjóra vegna “framúrkeyrslu” kostnaðar vegna umræddrar braggabyggingar sem nemur um 200 milljónum króna. Því miður er það allt of algengt að opinberar framkvæmdir standist ekki áætlanir.
En úr því borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru farnir að hvetja til afsagna vegna mála af þessu tagi, er ekki úr vegi að rifja upp mestu “framúrkeyrslu” allra tíma hjá Reykjavíkurborg. Ráðhús Reykjavíkur, Perlan og Viðeyjarstofa fóru samtals um tíu milljarða króna fram úr áætlunum á núverandi verðlagi undir lok valdatíðar Davíðs Oddssonar. Var hann látinn segja af sér? Nei, Sjálfstæðisflokkurinn gerði hann þess í stað að forsætisráðherra.
Getur verið að Hildur og Eyþór séu svo miklir hræsnarar að ætlast til þess að borgarstjóri segi af sér vegna “framúrkeyrslu” upp á 200 milljónir úr því að flokkur þeirra aðhafðist ekkert vegna 10 milljarða þegar Davíð stýrði borginni?
Hugsanlega eru þau ekki hræsnarar heldur bara svo miklir pólitískir kjánar að halda að enginn muni eftir misgjörðum flokksmanna þeirra. Þá er annað: Ekki er sama hvort um er að ræða Jón eða séra Jón. Og séra Jón er vitanlega alltaf í Sjálfstæðisflokknum!
Eitt er þó gleðilegt við þetta allt saman:
Vigdís Hauksdóttir fékk málið aftur en hún þagnaði algerlega þegar þingflokkur flokks hennar sýndi sinn innri mann á Klausturbarnum sælla minninga.
Vigdís hafði sig í að krefjast afsagnar borgarstjóra. Var hún búin að krefjast afsagnar Klausturdónanna í Miðflokknum?
Nei, ekki enn. Hlýtur þó að gerast fljótlega úr því hún er búin að finna röddina að nýju.
Rtá.