Hvíldu í friði. Ég elska þig

Þann 15 mars 1981, dó pabbi minn. Að­eins 31 árs gamall. Hann dó frá eigin­konu og 3 litlum börnum, 8 ára, 7 ára og 1 árs.

Þennan dag tók hann sitt eigið líf. Ég var bara rúm­lega eins árs þegar hann dó og þekkti hann því ekki en hef heyrt af honum sögur.

Hann var senni­lega ein­fari að mörgu leyti, leið ekki vel í kringum mikið af fólki nema þá kannski ef hann var undir á­hrifum á­fengis.

Snærún Ösp Guðmundsdóttir höfundur greinarinnar

Honum gekk vel í skóla og fékk glimrandi ein­kunnir. Lærði bú­fræði við Há­skólann á Hólum og var bóndi allt sitt líf. Hann átti stórt bú með kúm, kindum, hænum og hestum. Honum var margt til lista lagt, var t.d góður smiður. Pabbi var mikill hesta­maður, ræktaði hesta og átti sjálfur um 40 hesta og seldi þá einnig til Þýska­lands. Hann kenndi okkur syst­kinunum að sitja hest áður en við vorum farin að ganga.

Sennilega var það skemmti­legasta sem hann gerði var að fara í nokkra daga hesta­ferðir með góðum fé­lögum. En á­fengið var hans böl og átti eftir að taka yfir hans líf. Einnig átti hann senni­lega við þung­lyndi að stríða. Hann var góður og blíður maður, með hjarta úr gulli. Hann var góður við fjöl­skylduna og svo stoltur af börnunum sínum en þegar hann var undir á­hrifum þá breyttist hann. Hann var aldrei vondur við börnin sín en þegar hann reiddist lét hann það senni­lega bitna mest á mömmu.

Einn daginn datt pabbi í það og drakk fram á næsta morgun. Um morguninn rifust for­eldrar mínir og endaði það rifrildi með því að pabbi fór fram í for­stofu og skaut sig í hausinn. Við skot­hljóðið vöknuðu bræður mínir. Á bænum bjó gamall maður sem vann hjá okkur, hann fór að at­huga með pabba á meðan mamma fór til bræðra minna til að huga að þeim.

Guðmundur, faðir Snærúnar

Mikil skömm og engin hjálp

Á þessum tíma, árið 1981 var það mjög mikil skömm ef ein­hver tók líf sitt. Það mátti aldrei tala um þetta. Það var engin á­falla­hjálp. Mamma fékk eina svefn­töflu svo hún gæti nú sofið nóttina á eftir en fékk enga frekari hjálp og enga eftir­fylgni. Svona hlutir voru bara þaggaðir niður.

Bræður mínir hafa þurft að glíma við marg­vís­leg vanda­mál eftir þetta gríðar­lega á­fall. Þetta var svo mikil skömm, það mátti aldrei tala um þetta. Mér var sagt að pabbi hafi dáið í slysi og var ég orðin sirka sjö ára þegar ég kemst að því hvernig hann dó. Ég hef alltaf átt erfitt með að tjá mig um það, örugg­lega ein­hver skömm þarna.

Margir sem þekkja mig vita örugg­lega ekki hvernig pabbi dó. En ég hef síðast­liðið ár rætt þetta opin­skátt við fólk ef það spyr mig, en mér finnst alltaf erfiðast að fá við­brögð þeirra sem spyrja mig hvernig pabbi dó. Fólki finnst ó­þægi­legt að heyra þetta og ég skil það bara mjög vel. Ræturnar í tengsl við for­eldra liggja djúpt og þrátt fyrir að ég hafi aldrei þekkt hann þá sakna ég hans á hverjum degi. Ég hefði viljað kynnast honum og að börnin mín hefðu fengið að kynnast honum.

En sem betur fer eru breyttir tímar, það má tala um svona og það á að tala um svona. Það má ekki þagga svona niður. Þessi pistill á alls ekki bara að fjalla um pabba og allan harm­leikinn í kringum dauða hans, það væri efni í heila bók. Heldur langar mig að fara yfir fræði­legar og tölu­legar stað­reyndir um sjálfs­víg. Hvíldu í friði. Ég elska þig.

Faðir Snærúnar á yngri árum

Um sjálfs­víg:

Sjálfs­víg á sér oft undan­fara í löngu og flóknu ferli, sem endar með því að ein­stak­lingur tekur þá af­drifa­ríku á­kvörðun að enda líf sitt. Inn í allt þetta ferli spila fé­lags­legar að­stæður sem geta verið skyndi­leg á­föll, missir eða lang­varandi streita. Per­sónu­legir þættir skipta þarna líka miklu máli sem kunna að ein­kennast af reiði og hvat­vísi, ó­hóf­leg á­fengis-og vímu­efna­neysla og síðast en ekki síst geð­sjúk­dómar, t.d. þung­lyndi og kvíði. Það hefur viljað brenna við að sjálfs­víg sé sveipað dul­úð en ekki verður þó horft fram hjá því sjálfs­víg er alltaf harm­leikur sem hefur gríðar­leg á­hrif á um­hverfi þess sem sviptir sig lífi, fjöl­skyldu, vini og aðra.

Það mætti á­ætla að tugir ein­stak­linga sem tengdir eru ein­stak­ling sem sviptir sig lífi muni finna fyrir veru­legri röskun á geð­heilsu. Í flestum til­fellum mun um tíma­bundna röskun að ræða, en nokkur hluti þessa hóps mun þurfa fag­lega ráð­gjöf eða sér­fræði­með­ferð til að ná sér aftur á strik. Þeir sem eftir lifa sitja eftir upp­fullir af sárum til­finningum, undrun, dofa, af­neitun, ákafri sorg, reiði, sjálfs­á­sökunum eða á­sökunum á aðra. Sjálfs­mynd að­stand­enda brotnar og þeir sitja eftir með á­leitnar spurningar, t.d. kenna sér um hvernig fór og hafa oft til­hneigingu til að ein­angra sig. Erfitt getur verið að vinna úr sárs­aukanum og sumir losna aldrei undan honum.

Tölu­legar upp­lýsingar

Þrír til fjórir ein­staklingar munu svipta sig lífi í hverjum mánuði á Ís­landi. Karlar eru mun lík­legri en konur sem gera fleiri sjálfs­vígs­til­raunir sem enda ekki með dauða. Það veldur á­hyggjum hve sjálfs­vígs­tíðni karla undir 25 ára hefur aukist undan­farna ára­tugi, ekki bara á Ís­landi heldur víða um heim. Or­sakir eru ó­kunnar og ef­laust marg­þættar en ekki er ó­lík­legt að örar fé­lags­legar breytingar, jafn­vel breytingar á sam­fé­lags­legri stöðu karl­manna kunni að hafa þarna ein­hver á­hrif. Þeir sem taldir eru í sér­stakri hættu á að taka líf sitt eru fólk með al­var­legar geð­raskanir, sér­stak­lega þung­lyndi og geð­rofs­sjúk­dóma. Þeir sem einu sinni hafa gert til­raun til sjálfs­vígs eru mun lík­legri en aðrir til að reyna að fyrir­fara sér. Ungir karl­menn, sér­stak­lega hafi þeir ekki náð að marka sér stefnu í sam­fé­laginu, verða utan­veltu. Hvat­vísir karl­menn. Ungir karl­menn og konur með al­var­lega fíkni­sjúk­dóma. Karl­menn utan sam­búðar. Fangar, einkum í upp­hafi fanga­vistar. Konur sem eru komnar yfir miðjan aldur eru í meiri hættu en yngri konur. Há­aldraðir ein­staklingar, þ.e. 85 ára og eldri. Ein­staklingar sem verða fyrir á­föllum

Þegar metin er sjálfs­víg­hætta:

- Fyrri til­raunir

- Von­leysi

- Stera­notkun, auka x7 á­hættu á sjálfs­vígi

- Kyn (karlar gera hættu­legri til­raunir)

- Lang­varandi svefn­leysi

- Geð­rofs­ein­kenni

- Neysla

- Lang­varandi veikindi

- Býr einn

- Krísa

- Reiði/að­sóknar­kennd

- Hvat­vísi

- Vopn á þér eða á heimilinu

- Nú­verandi plön (undir­búningur)

- Nú­verandi sjálfs­skaði

- Kveðju­bréf

Snærún Ösp Guðmundsdóttir

Síður sem hægt er að leita sér upp­lýsinga vegna sjálfs­víga og sjálfs­vígs­hættu - Smelltu á hlekkinn til að fræðast meira.

Píeta

Hugarafl

Þú skiptir máli!

Sjálfsvíg.is