Sjöfn Þórðardóttir hefur tekið saman góð ráð fyrir fasteignakaupendur.
Hjá bönkum og öðrum lánveitendum, Íbúðalánasjóði eða lífeyrissjóðum, gilda mismunandi reglur um lánsfjárhæðir, sem sjálfsagt er að þú kynnir þér til dæmis á heimasíðum viðkomandi aðila. Algengt er að lánað sé fyrir allt að 85 prósent af markaðsvirði íbúðar fyrir fyrstu kaupendur ef greiðslumat sýnir að lántakandi ræður við afborganir af slíku láni. Lánastofnanir hafa ýmis viðmið um þetta atriði, til dæmis hámarksfjárhæð láns, og þú getur því alls ekki gengið að því sem vísu að þú fáir allt að 85 prósent af kaupverði íbúðar að láni.
- Hugsanlega stendur þér til boða að yfirtaka lán sem hvílir á íbúðinni sem þú hefur áhuga á að kaupa. Lántökugjöld eru þá lægri svo að þetta getur reynst góður kostur. Eftir sem áður verður þú að fara í greiðslumat til að sýna fram á að þú getir greitt af láninu sem þú yfirtekur.
- Lán til fasteignakaupa eru ýmist verðtryggð eða óverðtryggð og þau bera þá mismunandi vexti. Einnig tíðkast tvenns konar gerðir afborgana: jafnar afborganir eða jafnar greiðslur. Greiðslubyrði dreifist með ólíkum hætti á lánstímann eftir því hvaða lánategund er valin. Þegar endanlegt greiðslumat liggur fyrir skaltu velja þá tegund fasteignaláns sem hentar þér í samráði við og með ráðgjöf bankans þíns, lífeyrissjóðs eða til dæmis Íbúðalánasjóðs. Á vefsíðum þessara lánastofnana er að finna upplýsingar um mismunandi tegundir fasteignalána og reiknivélar þar sem þú getur fengið vísbendingar um mismunandi greiðslubyrði.
Hvað þarft þú sjálf(ur) að eiga upp í íbúðarverðið?
Algengast er að kaupandi verði að leggja fram sjálfur að minnsta kosti 20 prósent af söluverði íbúðar. Þetta er viðmið sem þú skalt hafa í huga en þú getur ekki treyst því undantekningarlaust að þú fáir lán fyrir öllu því sem eftir stendur af söluverðinu, sbr. það sem sagði hér að ofan.
- Krafan um að kaupandi leggi sjálfur fram allt að 20 prósent af söluverði íbúðar getur reynst þeim sem er að kaupa í fyrsta skipti erfiðasti hjallinn. Ef þú átt íbúð og ert að kaupa til þess að stækka við þig er hins vegar mikilvægt að þú komist að skynsamlegri niðurstöðu um hvað þú getur eða vilt taka á þig miklar fjárskuldbindingar vegna íbúðarkaupa á næstu árum.
Heimildir fengnar á heimasíðu Tryggingamiðstöðvar