Hvers virði er „óháð“ álit háskóla íslands á hvalveiðum eftir að hvalur hf. hefur greitt skólanum sex milljónir króna?

Upplýst hefur verið að Hvalur hf. greiddi til Háskóla Íslands kr. 6.000.000 nokkru áður en sjávarútvegsráðherra fól Háskóla íslands að taka saman „faglega“ skýrslu um framtíð hvalveiða við Ísland. Spyrja má hvort slík skýrsla sé nokkurs virði eftir að upplýst hefur verið um fjárhagsleg tengsl af þessu tagi. Nú eru allar heimildir til hvalveiða við Ísland runnar út og stjórnvöld þurfa fljótlega að taka ákvarðanir um framtíð veiða eða endalok hvalveiða í höfunum kringum Ísland. Þessar ákvarðanir munu snúast um framtíð Hvals hf. sem hvalveiðifyrirtækis. Fyrirtækið er þegar orðið eignaumsýslufyrirtæki sem ræður yfir tugmilljarða sjóðum, m.a. vegna sölu á hlutabréfum í Grandi hf. fyrir um 22 milljarða króna á síðasta ári.

 

Meginniðurstaða skýrslu Háskóla Íslands er sú að mikilvægt sé að drepa sem mest af hval. Skýrslan er mjög umdeild og niðurstöður hennar hafa verið gagnrýndar harðlega. Eftir að upplýst hefur verið að Hvalur hf. hafi geitt Háskóla Íslands milljónir króna um svipað leyti og unnið var að skýrslugerðinni, verður að líta þannig á að skýrslan sé ómarktæk og eðlilegt væri að ógilda hana í heild sinni.

 

Hér er því ekki haldið fram að um beinar mútur sé að ræða. En fjárhagsleg tengsl af þessu tagi eru vægast sagt á gráu svæði. Víst er að svona vinnubrögð væru ekki liðin í öðrum ríkjum Evrópu, nema þá helst allra syðst í álfunni þar sem siðferðisviðmiðin eru önnur. Viljum við Íslendingar haga okkur með svipuðum hætti og slíkar þjóðir eða viljum við láta telja okkur til siðaðra ríkja Vesturlanda?

 

Það eru alla vega einhverjar ástæður fyrir því að Ísland er neðarlega á lista alþjóðasamtaka sem fjalla um spillingu ríkja. Transparency International stofnunin metur Ísland mun neðar en hinar Norðurlandaþjóðirnar þegar kemur að spillingu. Við erum spilltasta þjóð Norðurlanda. Er það viðunandi eða er okkur alveg sama?  Eigum við að leyfa hagsmunaaðilum eins og Hval hf. að kaupa sér „vísindalegar“ niðurstöður sem stimplaðar eru með nafni Háskóla Íslands?

 

Full ástæða er til að segja nei við því.

 

Vert er að fylgjast vel með ákvörðunum stjórnvalda á næstunni vegna hvalamála. Ætla Vinstri grænir til dæmis að láta það viðgangast að ríkisstjórnin samþykki áframhaldandi hvaladráp við Ísland gegn öllum viðurkenndum viðmiðunum á sviði náttúru-og dýraverndar?

 

Þá er mikilvægt að hafa í huga að fjölskylda Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, er einn stærsti hluthafinn í Hval hf. með um 15% hlutafjár sem talið er vera að verðmæti um 5 milljarðar króna.

Sú staðreynd gefur enn frekara tilefni til að fylgjast vel með ákvörðunum ríkisstjórnarinnar í þessu viðkvæma máli.