Það hefur að vonum vakið mikla athygli að formaður Viðskiptaráðs Íslands, Katrín Olga Jóhannsdóttir, var felld út úr stjórn Icelandair Group á aðalfundi félagsins í gær.
Sjö voru í framboði og börðust um fimm stjórnarsæti. Katrín Olga fékk langminnsta fylgið og hafnaði í sjöunda sæti með sáralítinn stuðning.
Talið er að það hafi aldrei gerst áður að sitjandi formaður Viðskiptaráðs (áður Verslunarráðs) hafi verið felldur út úr stjórn í kosningum á þeim 100 árum sem ráðið hefur starfað. Katrín kemst því í sögubækur fyrir þetta. Þessi niðurstaða er klár vísbending um dvínandi virðingu sem borin er fyrir Viðskiptaráði Íslands og formanni þess.
Fleira kemur til. Katrín Olga var gagnrýnd fyrir að selja eignarhlut sinn í Icelandair á afar viðkvæmum tíma en það olli lækkun á gengi félagsins. Margir hluthafar áttu erfitt með að fyrirgefa henni það. Þá hefur spunnist neikvæð umræða um Katrínu Olgu vegna starfa sem hún hefur sótt fast að fá en án árangurs.
Framboð af Katrínu Olgu Jóhannsdóttur hefur reynst vera mun meira en eftirspurnin. Og því fór sem fór á aðalfundi Icelandair Group.
Rtá.