Margir telja að Ísland skari fram úr öðrum þjóðum með því að starfrækja minnsta gjaldmiðil í heimi. En annað er þó kannski öllu meira sérstakt og engin önnur þjóð getur státað af: Ísland hefur nú í fjóra áratugi starfrækt tvo gjaldmiðla.
Verðtryggða krónan geymir verðmæti eins og erlendir gjaldmiðlar
Við höfum sem sagt gömlu íslensku krónuna. En allt frá því að Norræna myntbandalagið, sem Ísland átti aðild að, leystist upp hefur hún ekki getað þjónað því meginhlutverki gjaldmiðla að geyma verðmæti. Vandinn er sá að til lengdar þrífst ekkert hagkerfi, hvorki frá sjónarmiði hagkvæmni né réttlætis, ef gjaldmiðill þess er of smár og óstöðugur til þess að geyma verðmæti.
Þegar í algjört óefni var komið af þessum sökum var ákveðið að stofna nýjan gjaldmiðil. Hann fékk nafnið verðtryggð króna. Hún lýtur sjálfstæðum lögmálum að miklu leyti óháð íslensku krónunni. Segja má að hún sé nær því að vera erlendur gjaldmiðill. Kostir hennar felast í því að hún heldur verðgildi sínu þó að hin hrynji. Hún hefur sem sagt gegnt því hlutverki sem gamla myntin gerir ekki að varðveita verðmæti.
Gjaldmiðill sem geymir verðmæti er forsenda félagslegs réttlætis
Heita má fullvíst að án gjaldmiðils sem geymt gat verðmæti hefði ekki tekist að byggja upp lífeyrissjóði sem tryggja öldruðum jafn mikil réttindi og raun ber vitni. Án þeirra hefði hugtakið félagslegt réttlæti svo allt aðra merkingu en það hefur í dag.
Nú áformar ríkisstjórnin að breyta þessu tvöfalda gjaldmiðlakerfi með því að afnema verðtryggðu krónuna með flóknum undantekningum. Öllu heldur má kannski segja að viðhalda eigi verðtryggðu krónunni sem sérstökum miðstýrðum undantekningagjaldmiðli.
Einhverjir kunna að spyrja hvort afnám verðtryggðu krónunnar hafi ekki neikvæð áhrif á félagslegt réttlæti í landinu að sama skapi og upptaka hennar hafði jákvæð áhrif. Svarið er: Jú, til lengri tíma litið er hætt við að afnám hennar hafi þau áhrif. Að segja annað væri að veðja á rússneska rúllettu.
Á þessu stigi er þó erfitt að sjá fyrir hvaða áhrif miðstýrðar undantekningar hafa í því sambandi. En hitt er víst að þær munu rugla og skekkja fjármálamarkaðinn eins og aðrar miðstýringarreglur með ófyrirséðum afleiðingum.
Vilmundur opnaði skilning manna á óréttlæti og spillingu sem fylgir gjaldmiðli sem geymir ekki verðmæti
Vandinn við að hafa gjaldmiðil sem ekki geymir verðmæti hefur verið umræðuefni allan lýðveldistímann. Það reyndist hins vegar erfitt að finna pólitískar forsendur til úrbóta á hreinum efnahagslegum forsendum.
Það var ekki fyrr en Vilmundur Gylfason fór að benda á það gríðarlega siðferðilega óréttlæti og þá miklu spillingu sem fylgdi gjaldmiðli af þessu tagi að almennur skilningur á þessum vanda skapaðist. Á
endanum voru það þessi rök sem réðu mestu um það fyrir fjórum áratugum að unnt var að taka upp gjaldmiðil sem geymdi verðmæti.
Helsti tilgangur gömlu krónunnar er að auðvelda mönnum að stela frá launafólki
Forgangsmarkmið ríkisstjórnarflokkanna og Miðflokksins er að hafa gjaldmiðil sem flutt getur verðmæti með einföldum og skjótum hætti frá launafólki til útflutningsfyrirtækja og þeirra fjármagnseigenda sem geyma verðmæti sín í erlendum gjaldmiðlum. Þessi þjófnaður er aftur á móti ein helsta undirrót vaxandi efnahagslegrar misskiptingar í samfélaginu.
Verðtryggða krónan hefur gert það að verkum að erfitt hefur verið fyrir stjórnvöld að ná til eigna launafólks í lífeyrissjóðunum til að færa til útflutningsfyrirtækja og fjármagnseigenda sem notað geta erlenda gjaldmiðla. Rétthafar í lífeyrissjóðunum hafa í reynd verið varðir með svipuðum hætti og þeir sem geyma eignir sínar í erlendum gjaldmiðlum.
Þó að ekki sé unnt að sjá nákvæmlega fyrir áhrif afnáms verðtryggðu krónunnar með miðstýrðum undantekningum er ljóst að svigrúmið til að stela eignum þeirra sem eiga réttindi í lífeyrissjóðunum verður rýmra. Kannski er það markmiðið.
Hvers vegna má ekki hafa einn gjaldmiðil sem getur geymt verðmæti?
Sennilega hefur hugur ríkisstjórnarinnar staðið til þess að einfalda gjaldmiðlakerfið með því að afnema verðtryggðu krónuna og hafa bara eina mynt eins og aðrar þjóðir. En hætt er við að reglurnar um verðtryggða krónu með miðstýrðum undantekningum muni gera gjaldmiðlakerfið enn flóknara.
Þrátt fyrir allt virðist ríkisstjórnin bæði vilja halda og sleppa verðtryggðu krónunni. Tillögur hennar um miðstýrðan verðtryggðan undantekningargjaldmiðil eru fyrst og fremst til vitnis um að ríkisstjórnarflokkarnir viðurkenna í raun að gamla íslenska krónan gegnir ekki því meginhlutverki að geyma verðmæti.
Er ekki betri kostur að viðurkenna þá staðreynd með því að stefna að því að taka upp einn gjaldmiðil sem þjónað getur þessu lykilhlutverki í hagkerfinu?
Færeyingum vegnar vel með fasttengingu við evruna
Þetta gera Færeyingar. Færeyska krónan er í gegnum dönsku krónuna fasttengd við evruna. Það er hægt að geyma verðmæti í færeysku krónunni. Hún hefur það umfram gömlu íslensku krónuna.
Efnahagur Færeyinga er stöðugri en okkar og ekki síður blómlegur. Þeir hafa beinlínis afsannað þá kenningu stjórnarflokkanna og Miðflokksins að í hagkerfi eins og okkar sé nauðsynlegt að stela eignum frá launafólki með jöfnu millibili.
Við þurfum ekki að fara langt yfir skammt í leit að góðu fordæmi til eftirbreytni.