Þegar sterkasta vígi flokks klofnar, hlýtur að vera ástæða til að staldra við og spyrja spurninga.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið völdum á Seltjarnarnesi samfellt í 68 ár. Nú er flokkurinn að klofna - ekki bara í tvennt, heldur þrennt.
Skafti Harðarson tilkynnti í gær um framboð frjálshyggjumanna sem una ekki lengur í flokknum.
Áður hafði verið sagt frá framboði Viðreisnar með Neslistanum. Karl Pétur Jónsson leiðir þann lista en hann hefur verið varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Nesinu. Karl Pétur gekk í Viðreisn fyrir 2 árum.
Ætla má að talsverður fjöldi frjálslyndra og alþjóðasinnaðra kjósenda á Nesinu yfirgefi nú Sjálfstæðisflokkinn og styðji Viðreisn eins og harðlínufólkið mun gera til að styðja frjálshyggjulista Skafta Harðarsonar og félaga.
Hvers vegna er staða flokksins á Nesinu allt í einu svona veik?
Aðdragandinn er langur. Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri byrjaði feril sinn ekkert illa. En hún hefur smám saman verið að breytast í hrokafullan flokkseiganda sem bæjarbúar sætta sig illa við. Hún hefur tvisvar hlotið dóma fyrir einelti gagnvart starfsfólki bæjarins og hún er einráð og ólagin í mannlegum samskiptum. Þá gætir vaxandi stöðnunar í málefnum bæjarins og almennrar þreytu.
Ásgerður hefði átt að þekkja vitjunartíma sinn og hætta núna en það gerði hún ekki. Því miður fyrir flokk hennar.
Þann 26. maí geta kjósendur tekið ákvörðun um nýja tíma á Seltjarnarnesi.
Rtá.