Margir velta því fyrir sér hvað Morgunblaðinu gangi til að birta greinar Björns Inga Hrafnssonar um átök hans vegna gjaldþrots nokkurra fjölmiðlafyrirtækja á viðhafnarstað í blaðinu.
Deilur standa yfir milli Björns Inga og hóps manna sem Árni Harðarson lögfræðingur er í forsvari fyrir. Morgunblaðið hefur birt harðorðar greinar Björns Inga í miðopnu blaðsins. Í gær svaraði Árni Harðarson á sama stað og sagði þá m.a.:
“Þau greinarskrif sem Björn Ingi stendur í núna koma mér því ekki á óvart, enda maðurinn í mínum huga, eftir kynni mín af honum sem stjórnanda Pressunar, siðlausasti einstaklingur sem ég hef haft afskipti af. Það kemur mér hins vegar á óvart að Morgunblaðið og mbl.is hafi ákveðið að verða birtingarform einhliða níðgreina Björns Inga.”
“Siðlausasti einstaklingur ......... .” Stór orð sem væntanlega eru ekki sett á prent nema að vel athuguðu máli.
Þeir sem fá greinar sínar birtar í miðopnu Morgunblaðsins eru yfirleitt ekki aðrir en menn sem ritstjórn blaðsins hefur velþóknun á, fólk eins og Jón Steinar Gunnlaugsson, Hannes Hólmsteinnn Gissurarson, Hjörleifur Guttormsson, Guðni Ágústsson, Jón Bjarnason, Björn Bjarnason og fleiri vel valdir einangrunarsinnar. Nú er Björn Ingi Hrafnsson komin í þennan eðalhóp.
Björn Ingi Hrafnsson kemur við sögu í Rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem fjallað var um skuldir fjölmiðlamanna í aðdraganda hrunsins. Í skýrslunni segir að Björn Ingi hafi skuldað 563 milljónir króna, beint eða í gegnum félög sín. Næstur á eftir honum var Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins með skuldir að fjárhæð 478 milljónir króna og í þriðja sæti var Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, með 154 milljónir króna árið 2006. Þetta kemur m.a. fram í umfjöllun DV þann 12. apríl 2010.
Rtá.