Andstæðingar Framsóknar eru flestir sammála um að flokkurinn muni fá mun minna fylgi í komandi kosningum ef Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verður áfram formaður. Flestir eru þeirrar skoðunar að Framsókn geti ekki náð nema 8-10% fylgi í kosningunum undir formennsku Sigmundar en fylgið gæti farið í 12 til 15% ef Sigurður Ingi Jóhannsson ber sigur úr bítum.
Náttfari hitti einn af núverandi þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem sagði að rökrétt væri fyrir hann og félaga hans að óska þess að Sigmundur Davíð yrði áfram formaður því ætla má að þeir kjósendur sem treysta sér ekki til að kjósa Framsókn Sigmundar væru líklegir til að færa sig yfir á Sjálfstæðisflokkinn enda ekki um mikinn mismun á stefnu að ræða eins og staðan er nú. Hann sagðist meta það svo að Sjálfstæðisflokkurinn ætti góða möguleika á að ná 25% fylgi í kosningunum ef Sigmundur Davíð leiddi Framsókn. Annars væri líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn færi niður undir 20%.
Þingmaðurinn bætti svo við að þrátt fyrir þessar rökréttu pælingar, vonaði hann að Sigurður Ingi Jóhannsson hefði betur og tæki við sem formaður Framsóknar. Sigmundur Davíð væri þegar orðinn skaðvaldur í íslenskum stjórnmálum og það væri mikilvægt fyrir framtíð stjórnmála hér á landi að þessi tákngervingur spillingar og svika viki af sviðinu.
Sem Íslendingur óska ég þess að Sigurður Ingi vinni og að Sigmudnur Davíð sjái sér þann kost vænstan að hætta afskiptum af stjórnmálum hér á landi, sagði þessi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Náttfari getur ekki annað en tekið undir þessi orð, enda sannur Íslendingur.