Landsmenn hafa væntanlega tekið eftir því að litlar fréttir bárust frá þingmönnum og ráherrum í liðinni viku. Ástæðan er sú að þá stóð yfir „kjördæmavika“ og störf Alþingis lágu niðri. Þessi tími er þingmönnum ávallt kærkominn því að þá geta þeir hvílt lúin bein. Erfitt er hins vegar að koma auga hvað það gæti verið sem hefur þreytt þá svo mjög.
Væntanlega hafa einhverjir þingmenn haldið til funda út í kjördæmi sín, einkum til að taka við kröfum og pöntunum frá kjósendum um margvísleg ríkisútgjöld í heimabyggð. Fólk á yfirleitt ekki önnur erindi við kjörna fulltrúa en að heimta eitt og annan af hinu opinbera. Yfirleitt gengur það býsna vel enda hefur ríkisbáknið þanist meira út í seinni tíð en áður hefur sést á Íslandi.
Frést hefur af þingmönnum og ráðherrum í góða veðrinu erlendis, meðal annars á Tenerife, Spáni og víðar í Evrópu. Ekki er skrítið að þeir haldi til Tenerife, enda liggja þúsundir Íslendinga þar og sóla sig í góða veðrinu. Þar er þá væntanlega góður vettvangur stjórnmálamanna til að hitta á kjósendur.
Í síðustu viku var allt með kyrrum kjörum í stjórnmálunum hér á landi. Ætli það hafi ekki verið lognið á undan storminum? Framundan er útgáfa bankaskýrslunnar langþráðu, ASÍ-þing þar sem valin verður beinskeytt forysta, 300 lausir kjarasamningar, áframhaldandi vaxtaokur og verðbólga og svo þarf að afgeiða fjárlög næsta árs með bullandi halla sem er vitanlega með öllu óboðlegt – fullkomið dæmi um það hvernig stjórnvöld hafa gefist upp á að stjórna og láta allt reka á reiðanum.
Fram undan eru fróðlegir tímar.
- Ólafur Arnarson.