Fjölmiðlar og stjórnmálamenn verða nú að staldra við og breyta um vinnubrögð varðandi umfjöllunarefni og áherslur. Í bili er komið alveg nóg af ómerkilegum málum sem taka upp meira og minna allt rými í fjölmiðlum og einnig í umræðunni á vettvangi stjórnmála, þar á meðal í Alþingi. Á meðan bíða risastór mál sem fá takmarkaða athygli. Vinnumarkaðurinn er í uppnámi, lausir kjarasamningar og miklar hótanir undirliggjandi. Til þess að greiða úr erfiðum og flóknum málum sem tengjast vinnumarkaðnum og atvinnulífinu þarf að takast á við skattastefnu, rekstur ríkissjóðs og getu atvinnulífsins til að standa undir kröfum samfélagsins.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er verklaus enn sem komið er. Hún var stofnuð um kyrrstöðu til varnar sérhagsmunum sjávarútvegs og landsbúnaðar á kostnað neytenda og skattgreiðenda. Þannig hefur hún starfað í 14 mðánuði og engu skilað. Það er í þágu þessarar stefnu að umræðan í samfélaginu snúist um ómerkileg mál. Á meðan beinist athyglin ekki að verkleysi ríkisstjórnarinnar og því hvernig hún virðist ekki hugsa um annað en að gæta vel að völdum og mjúkum ráðherrastólum.
Það er með ólíkindum hve mikið er hægt að tala um bjánalega framkomu sex þingmanna úr Miðflokki og Flokki fólksins á bar í nágrenni Alþingis. Þeir urðu sér til skammar, vita það, hafa gengist við því og beðist afsökunar. Þar með ætti málinu að vera lokið. Engu er við það að bæta. Þeir geta ekki komið í veg fyrir þessa atburði. Það hefur enginn vald til að vísa þeim af Alþingi fyrr en þá kjósnedur í næstu kosningum. Það er einnig orðið mjög ógeðfellt að sjá hvernig aðrir reyna að nýta sér ógæfu þessara manna. Gildir það jafnt um þingmenn, ráðherra og aðra. Mál að linni.
Það er í þágu kyrrstöðuríkisstjórnarinnar að umræðan snúist um það hvort eigi að færa klukkuna til, ritskoða list í opinberum stofnunum eins og Seðlabanka Íslands eða taka enn fleiri snúninga á Klausturmálinu.
Ríkisstjórnin hefur fáu komið í verk. Helst að lækka veiðileyfagjöld um fjóra milljarða til hjálpar sægreifum landsins, hún hefur þrefaldað styrki til stjórnmálaflokka, hún er einhuga um að tryggja tilvist Bankasýslu ríkisins og undirbýr nú nýjar ríkisstofnanir til að útdeila styrkjum til bókaútgáfu, aðra til að styrkja þóknanlega fjölmiðla og þá þriðju til að geyma arðinn af Landsvirkjun. Sú síðastnefnda á að heita því gildishlaðna nafni „Þjóðarsjóður“.
Er ekki kominn tími til að beina athyglinni að því sem skiptir máli? Beina athyglinni að lausn kjaradeilna í landinu, mótun skattastefnu til næstu ára og hvernig unnt er að tryggja þá umgjörð um atvinnulífið að það geti staðið undir sívaxandi kröfum launþega og samfélagsins í heild.