Að vanda verður þremur áhugaverðum spurningum um starfsemi mannslíkamans svarað í fræðsluþættinum Líkamanum sem er á dagskrá Hringbrautar í kvöld, en þar er fagfólk og sérfræðingar til svara.
Kírópraktorinn Bergur Konráðsson svarar spurningunni hvað er brjósklos og lýsir af fagmennsku sinni hvernig sá krankleiki brýst fram og hvað er til ráða til að kveða hann í kútinn. Næringarlæknirinn Birna G. Ásbjörnsdóttir svarar þeirri tímabæru spurningu hvernig áfengi leiki líkamann, en um þetta leyti árs er þess neytt meira en alla jafna. Og loks fjallar kvensjúkdómalæknirinn Ómar Sigurvin Gunnarsson um meðgöngueitrun og meðferð við henni.
Líkaminn er á dagskrá Hringbrautar öll miðvikudagskvöld klukkan 20:00, en þáttastjórnina annast hjúkrunarfræðingurinn Helga María Guðmundsdóttir og sjónvarpsmaðurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson.