Íslandsbanki hefur staðið fyrir áhugaverðum fræðslufundum síðastliðnar vikur sem hafi vakið mikinn áhuga meðal þátttakenda. Meðal þeirra erinda sem flutt hafa verið er „Svona eignast þú íbúð“ og þátttakendur hvattir til að vera meistarar hinna þaulskipulögðu húsnæðiskaupa. Við hittum Lindu Lyngmo, sérfræðing í íbúðalánum hjá Íslandsbanka og spjölluðum við hana um efnivið fræðslufundanna og markmið fundanna.
Getur þú sagt okkur nánar frá þessum fræðslufundum sem þið hafið staðið fyrir og markmiðum ykkar með fundunum? „Já, við Björn Berg, fræðslustjóri Íslandsbanka, höfum undanfarna mánuði haldið opna fundi fyrir fólk sem er í þeim hugleiðingum að kaupa sér fasteign,“ segir Linda.
„Á fundunum höfum við farið í gegnum ferlið frá upphafi til enda en markmiðið með þeim er að fræða fólk og upplýsa um það sem mikilvægast er að hafa í huga, koma með hagnýt ráð og benda á valmöguleika.“ Að kaupa sér fasteign er ein mikilvægasta ákvörðun í lífi fólks og reynist hún fólki oft erfið í framkvæmd. Það er margt sem spilar þar inni í og á fundunum leggjum við sérstaka áherslu á greiðslumat, sparnað og önnur úrræði, þar á meðal úrræði ríkisstjórnarinnar fyrir fyrstu kaupendur, sem hægt er að nýta við fasteignakaup.
Gríðalega góð mæting á fræðslufundina
„Upphaflega áttu þetta að vera einn til tveir fundir en þeir eru nú orðnir sjö talsins. Við erum afar ánægð með mætingu á fundina og nú hafa sjöhundruð áttatíu og fimm gestir sótt þá til okkar. Þegar mest var voru um tvöhundruð manns og þá vorum við með tvo samliggjandi fundi á sitthvorum staðnum í húsinu. Við höfum einnig haldið einn svona fund á ensku og heppnaðist það vel enda er stór hluti fasteignakaupenda af erlendum uppruna.“
Þekking á heildarferlinu við fasteignakaup brýn
Hvaða atriði er helst farið yfir á fræðslufundunum? „Við teljum mikilvægt að fólk þekki heildarferlið við fasteignakaup áður en lagt er af stað og vörpum ljósi á mikilvægi þess að fólk byrji snemma að huga að því að spara fyrir útborgun. Farið er yfir hvaða sparnaðarmöguleikar standa fólki til boða og einnig stiklað á stóru varðandi atriði sem snúa að samskiptum við fasteignasölur í ferlinu. Við leggjum áherslu á þætti sem nýtast kaupendum í ferlinu ásamt því að fara yfir kostnaðinn sem fylgir því að kaupa fasteign, svo sem falinn kostnað, sem fólk gerir sér oft ekki grein fyrir að sé til staðar.“
Hægt að panta ráðgjöf
„Við kynnum einnig fyrir fólki þann möguleika að það er hægt að panta tíma í ráðgjöf þar sem farið dýpra í mál hvers og eins, möguleikar ræddir og farið yfir hvað hentar fólki út frá þeirra markmiðum sem er erfitt að gera á opnum fundum.“
Hvað getur tekið langan tíma fyrir ungan einstakling að eignast íbúð eftir háskólanám? „Samkvæmt nýjustu tölum Íslandsbanka er meðalaldur fyrstu kaupenda um þrjátíu og þriggja ára, þetta þýðir að ef gert er ráð fyrir að fólk sé að útskrifast úr háskóla tuttugu og fimm ára líða um það bil átta ár frá því að einstaklingur lýkur námi þangað til að hann kaupir sína fyrstu fasteign.“ Hversu langan tíma það tekur einstakling að eignast íbúð er mjög einstaklingsbundið. Það sem reynist fólki hvað erfiðast er krafa um uppsafnað eigið fé sem þarf að vera til staðar þannig að hægt sé að ganga frá kaupum. Hversu langan tíma það tekur fer til dæmis eftir því hversu fljótt einstaklingurinn byrjaði að spara, hversu mikið hann hefur haft tök á því að spara, hvort hann hafi fengið fjárhagsaðstoð frá fjölskyldu eða vinum og svo framvegis.
Síðastliðin þrjú ár hefur markaðsverð íbúðarhúsnæðis á landinu öllu hækkað að meðaltali um 42%, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Þessar verðhækkanir valda kröfum um aukið eigið fé við fasteignakaup sem gerir það að verkum að oft á tíðum er erfiðara, sérstaklega fyrir fyrstu kaupendur, að komast inn á markaðinn.
Sparnaður mikilvægastur
„Að tileinka sér sparnað um leið og hægt er gerir fólk betur í stakk búið til að geta keypt fasteign þegar sú staða er uppi. Hversu háar fjárhæðir ungt fólk getur lagt fyrir í hverjum mánuði er mjög persónubundið og veltur á aðstæðum hvers og eins. Það er hins vegar mjög mikilvægt að fólk á öllum aldri hugi að sparnaði og reyni að leggja fyrir eins og kostur er,“ segir Linda og leggur áherslu á sparnaðinn. „Eðli málsins samkvæmt er auðveldara að kljúfa útborgun ef tveir eru að kaupa saman enda líklegra að samanlagt eigið fé eða samanlagður sparnaður dugi betur fyrir útborgun í fasteign.“