Áður en Ragnar Þór Ingólfsson varð formaður VR hafði félagið gengið inn í samstarfsverkefni um byggingu íbúða fyrir láglaunafólk ásamt ASÍ og BSRB.
Í dag 23. febrúar birtust fréttir af, að tveimur árum eftir að félagið var stofnað, Bjarg íbúðafélag, verði tekin fyrsta skóflustunga að 155 íbúðum við Móaveg í Spönginni í Reykjavík. Reiknað sé með að um 450 íbúðir verði komnar í byggingu hjá félaginu í lok þessa árs og rúmlega þúsund til viðbótar á næstu þremur til fjórum árum.
Þessi áform eru svo stórhuga að þau leiða strax hugann að stórverkefni stjórnvalda um 1970 til að leysa alvarlegan húsnæðisvanda almennings: Framkvæmdanefndaríbúðirnar í Neðra-Breiðholti.
Ragnar Þór deilir frétt mbl.is af skóflustungunni á Facebook og skrifar sjálfur við: „Mikilvægt verkefni að fara af stað en VR kemur að þessu sameiginlega verkefni verkalýðshreyfingarinnar um byggingu leiguíbúða fyrir þá tekjulægstu.“
Þetta eru merkileg ummæli í ljósi þess að í gær, aðeins degi áður, hafði vefmoggi leitað álits hans á þessu verkefni í ljósi þess að hinn nýi formaður VR hefur boðað hliðstætt verkefni á vegum VR þar sem önnur samtök komi ekki að. Ragnar Þór afgreiðir það snöfurmannlega og segir: „Þetta er bara annað módel.“
Af því sem séð verður af fréttum um Bjarg íbúðafélag frá stofnun þess á 100 ára afmælisdegi ASÍ 12. mars 2016 er markmið með stofnun félagsins það sama og formaður VR hefur kynnt sem markmið hans verkefnis, sem hann hefur fengið stjórn félagsins til að samþykkja. Það er að útvega fólki (félagsmönnum væntanlega í báðum tilvikum) ódýrar íbúðir, að minnsta kosti íbúðir sem greiða þarf minni leigu fyrir heldur en gengur og gerist á hinum frjálsa markaði.
Ekkert er nýtt undir sólinni, ekki heldur þessi markmið.
Byggingarsjóður verkamanna hafði þetta markmið líka og til að byrja með hafði hann einnig stuðning stjórnvalda í fjárveitingum til að niðurgreiða vexti. Þannig urðu verkamannabústaðirnir til sem seinna fengu nafnið félagslegar íbúðir og sjálfsagt einhver fleiri nöfn. Í því systemi öllu varð til dæmis Neðra Breiðholtið til og hluti þess efra líka og allmörg önnur íbúðahverfi.
Margir fleiri hafa reynt að klappa þennan stein: Að útvega láglaunafólki (jafnvel meðallaunafólki líka) ódýrar íbúðir. Til urðu mörg byggingasamvinnufélög, til varð fyrirbærið Búseti og fleiri og fleiri. Öll eiga þessi félög, stofnanir og fyrirbæri eitt sameiginlegt: Fjárhagslegur grundvöllur þeirra var ekki fyrir hendi og þau fóru í þrot, það var aldrei spurning hvort, heldur bara hve langan tíma það tæki.
Hvað er ólíkt með „módeli“ VR annars vegar og ASÍ, BSRB og VR hins vegar? Í báðum tilvikum er ætlunin að útvega félagsmönnum íbúðir á lágu verði og í báðum tilvikum á eftir því sem séð verður af mjög svo takmörkuðum upplýsingum um eðli verkefnanna að leita hagkvæmra leiða við byggingarnar. Í fljótu bragði má sjá tvennt afar ólíkt.
Í fyrsta lagi lóðirnar. Í fyrrnefndri frétt á vef ASÍ segir: „ Reykjavík, Hafnarfjörður og ýmis sveitarfélög á landsbyggðinni munu leggja til lóðir vegna uppbyggingarinnar.“ Þarna virðist vera komin ein meginforsendan fyrir því, að ætlunarverkið gæti etv tekist, að minnsta kosti að einhverju marki. Lóðavderð er nefnilega ein helsta orsök hins himinháa verðs á fasteignamarkaði höfuðborgarsvæðisins, hvort sem er við íbúðakaup eða leigu. Ekki er hægt að sjá af fréttum frá áformum Ragnars Þórs að honum hafi tekist að komast hjá þeirri hindrun.
Hinn munurinn má segja að sé í hlutföllum: VR er stærsta launþegafélag landsins með um 33 þúsund félagsmenn. Ragnar Þór segir í mbl.is fréttinni þann 22. mars „ hugmyndina að reisa 40 íbúða fjölbýlishús þar sem lögð verði áhersla á að byggja hagkvæmt en engu að síður að koma til móts við allar þarfir nútímamannsins í stað þess að reyna að hafa íbúðirnar sem minnstar eins og hjá Bjargi. Gróðasjónarmið ráði ekki för heldur fari allur hagnaður af rekstrinum umfram ávöxtunarkröfu í að lækka leiguverðið.“
Enn hefur ekkert verið sagt um hvert sé réttlætið í því að láta 33 þúsund félagsmenn fjárfesta í íbúðum fyrir 40 félagsmenn. Hjá Bjargi íbúðafélagið er þetta hlutfall, miðað við áform, þó eitthvað skárra.
Hvernig á að úthluta íbúðunum? Hvernig á að koma í veg fyrir frændhygli og klíkuskap þar? Hvernig á að tryggja að þetta verkefni fari ekki á hausinn eða að það verði ekki til langrar framtíðar baggi á sjóðum félagsmanna VR? Hvernig á að halda utan um þetta? Verður stofnuð fasteignarekstrardeild VR? Eða kannski samið við ISS um að sjá um fasteignareksturinn og þá væntanlega um leið innheimtu húsaleigunnar? Eða ætlar Ragnar Þór kannski að fá sinn heittelskaða lífeyrissjóð til að annast þá innheimtu eins og félagsgjaldanna?
Það er einkar athyglisvert að enginn fjölmiðill hefur enn látið sér detta í hug að inna Ragnar Þór eftir svörum við eðlilegum efnislegum spurningum sem þessum um þetta gæluverkefni sitt sem hann hyggst láta félagsmenn VR borga fyrir.
Hver er galdur Ragnars Þórs við að finna upp þetta hjól sem engum öðrum hefur enn tekist að finna upp, þrátt fyrir marga tugi tilrauna og þar á meðal með miklum tilstyrk ríkisins?
rtá