Sex einföld ráð í ræktinni

Eins og við vitum þá er mismikið að gera hjá okkur. Það getur farið eftir árstíðum og einnig geta óvænt verkefni bankað upp á sem taka frá okkur tíma og þrek. Þegar mikið gengur á þá eigum við það til að forgangsraða verkefnum þannig að við sjálf erum sett á hakann og svoleiðis getur tíminn liðið. En það má ekki gleyma að hugsa um líkamann og sálina. Við eigum aðeins einn líkama og við verðum að gefa okkur tíma til að rækta hann.

Það helsta sem fólk segir að vanti til að hreyfa sig reglulega er tími. En það þarf ekki að vera tímafrekt. Það þarf aftur á móti vilja og smá þrjósku. Það er miklu auðveldara að hreyfa sig þrisvar í viku heldur en að halda mataræðinu skynsamlegu alla daga vikunnar. En þegar maður er byrjaður að hreyfa sig reglulega þá fylgir mataræðið fast á eftir. Maður finnur fljótt hvaða matur gefur manni orkuna til að halda út æfingu og gera hana auðveldari.

Til að byrja með er hægt að fara einföldu og ódýru leiðina og fara út að ganga. Við búum við þau forettindi að hafa hreint loft og nóg af gönguleiðum. Það er hægt að hlaupa og ganga til skiptis og áður en maður veit af getur maður farið lengri vegalengd á skemmri tíma.

Mikilvægi hreyfingar er vel þekkt. Hreyfing stuðlar að bættri líðan og hún bætir bæði svefn og lundina. Hreyfing bætir ónæmiskerfið og er góð forvörn gegn lífsstílssjúkdómum. Einnig bætir hreyfing meltinguna og minnkar kvíða.  

Þar sem ég hef mikið dálæti af hreyfingu þá ætla ég að gefa ykkur nokkur einföld ráð til að byrja.

  1. Vertu í góðum félagsskap. Æfingin verður mun skemmtilegri og það er mun líklegra að þú hætti ekki við ef þú ert búin/n að plana stefnumót með öðrum.
  2. Hlustaðu á góða tónlist. Tónlist hefur örvandi áhrif á í heilann og það er alveg magnað hvað hún getur haft mikil hverjandi áhrif.
  3.  Klæddu þig í fötin og farðu út. Ekki búa til afsakanir, farðu í æfingarfötin og það er bannað að fara úr fötunum fyrr en þau hafa verið notuð.
  4. Settu þér raunhæf markmið. Þau geta verið jafn einföld eins og að fara í ræktina þrisvar í viku eða taka alltaf 10 hnébeygjur og 10 armbeygjur fyrir svefninn. Einnig er gott að setja langtíma markmið, eins og að taka þátt í maraþoninu.
  5. Fjölbreyttar æfingar. Ef þér finnst leiðinlegt að æfa þá getur verið að þú sért ekki að velja réttu hreyfinguna fyrir þig. Breyttu til og finndu aðra líkamsrækt. Ef þér finnst leiðinlegt að hlaupa þá er kannski upplagt að fara að synda. Ef þér finnst þú ekki vera að fá nægilega mikið úr því að mæta í líkamsrækt og lyfta, farðu þá í tíma með þjálfara sem leiðbeinir þér.
  6. Hafðu gaman af líkamsræktinni. Það eru forettindi að geta hreyft sig og um að gera að njóta stundarinnar. Hreyfing eykur framleiðslu á endorfíni sem eykur vellíðunartilfinningu. Síðan er alltaf jafn gaman að sjá árangur erfiðisins.