Allt var lagt undir til að fá sem flesta til að mæta í afmælisveislu Davíðs Oddssonar sem útgáfufélag Morgunblaðsins stóð fyrir, auglýsti upp og kostaði að öllu leyti.
Ætlunin var að fá fram hagstæða styrkleikakönnun fyrir Davíð sem hefur verið frekar vængbrotinn eftir þá útreið sem hann hlaut í forsetakosningunum 2016 en hann hafnaði þá í fjórða sæti með einungis 13% fylgi eins og kunnugt er.
Mikið var lagt upp úr því að fjöldi gesta léti sjá sig í Hádegismóanum en ekki síður að þekkt fólk kæmi, áhrifamenn úr stjórnmálum, stjórnsýslu, viðskiptum og atvinnulífi. Mbl.is birti svo nær 60 myndir af þeim sem þóttu skreyta boðið hvað mest. Helmingur myndanna reyndist vera af starfsmönnum Morgunblaðsins sem mættu auðvitað vel. En fáir tignir gestir komu sem hljóta að hafa verið mikil vonbrigði.
Einungis þrír ráðherrar mættu, Bjarni formaður, Þórdís og Sigríður Andersen. Guðlaugur Þór og Kristján Þór sáust ekki og enginn af ráðherrum Framsóknar. Forseti Íslands heiðraði ekki fyrrverandi forsætisráðherra með nærveru sinni. Ekki frekar en núverandi forsætisráðherra eða fyrrverandi forsetar, Vigdís og Ólafur Ragnar.
En það hlýtur að teljast mikið umhugsunarefni að Guðni Ágústsson var sá eini af 23 fyrrverandi ráðherrum sem voru í ríkisstjórnum Davíðs sem mætti. Enginn hinn tuttuguogtveggja sáu ástæðu til að samfagna með Davíð á þessum tímamótum.
Er það hugsanlegt að framkoma Davíðs við þá sem sátu í ríkisstjórnum hans hafi verið þannig að enginn þeirra hafi fundið hjá sér löngun til að sýna honum samhug og virðingu á þessum tímamótum, að Guðna Ágústssyni einum undanskyldum?
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins var sá eini sem mætti í síðdegisboðið af forystumönnum SA.
Enginn formanna aðildarfélaganna var sýnilegur og heldur enginn af forstjórum stærstu fyrirtækja landsins.
Atvinnulífið var fjarverandi eins og meirihluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
Vonandi gleður það Davíð og spunalið hans að tveir fyrrverandi ráðherrar Vinstri grænna mættu og vottuðu honum hollustu, þeir Ögmundur Jónasson og Jón Bjarnason formaður Heimssýnar.
Rtá.