Hverjir borga tugmilljóna auglýsingar sægreifaflokkanna?

 Mikillar taugaveiklunar gætir nú hjá stjórnmálaflokkunum í aðdraganda kosninga um næstu helgi. Það sést best á þeim miklu auglýsingum sem Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Vinstri græn birta þessa dagana.

 

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Vinstri græn hafa tekið 30 milljón króna lán til að standa straum af þessum kostnaði. Formaður flokksins viðurkennir að sjóðir flokksins séu tómir og flokkurinn hafi því þurft að taka lán. Vinstri græn skulda þó ekki mikið saman borið við aðra af gömlu flokkunum. Sjálfstæðisflokkurinn skuldar 500 milljónir króna og bæði Samfylking og Framsókn standa einnig illa fjárhagslega.

 

Athygli vekur hve dýra kosningabaráttu Sjálfstæðisflokkurinn rekur í ljósi afleitrar skuldastöðu. Flokkurinn hefur ráðist í gerð rándýrra sjónvarpsauglýsinga og auglýsir grimmt í sjónvarpi, blöðum og á netmiðlum. Ætla má að auglýsingaherferð flokksins kosti marga tugi milljóna króna sem ekki verða greiddir úr galtómum sjóðum flokksins. Ekki þarf heldur að gera ráð fyrir að neinn banki vilji lána flokki sem skuldar þegar 500 milljónir króna.

 

Skýringin hlýtur að vera sú að velviljaðir hagsmunaaðilar sem vilja verja sérhagsmuni í sjávarútvegi og landbúnaði taki upp veskin og borgi brúsann. Sama gildir einnig um Framsóknarflokkinn sem auglýsir grimmt, m.a. í sjónvarpi, blöðum og á netmiðlum. Framsókn á örugga bakhjarla sem verja flokkinn gegn því að hann verji þá.

 

Ríkisendurskoðun á að hafa eftirlit með fjárreiðum sjtórnmálaflokka. Vonandi fer stofnunin vel ofan í það hvernig gjafakvótaflokkarnir fara að því að reka rándýra kosningabaráttu út úr galtómum sjóðum sínum.

 

Þess má geta að hvorki Sjálfstæðisflokkur né Framsókn hafa skilað ársreikningum til Ríkisendurskoðunar og opinberað reikningsskil sín fyrir árið 2016.

 

 

Rtá.