Hver verður útvarpsstjóri ef magnús geir hættir

 Magnús Geir Þórðarson er meðal umsækjenda um starf þjóðleikhússtjóra. Gengið verður frá ráðningu á næstu dögum.  Valið verður á milli nokkurra hæfra umsækjenda.

 

Verði Magnús Geir fyrir valinu þarf að finna nýjan útvarpsstjóra RÚV. Menntamálaráðherra skipar í þetta mikilvæga en erfiða starf. Því liggur beinast við að gera ráð fyrir því að fyrir valinu verði góður og gegn framsóknarmaður úr hinum eina og  sanna Framsóknarflokki. Auðvitað eru framsóknarmenn í ýmsum flokkum öðrum en Framsókn. Einkum á þetta við um Sjálfstæðisflokk, Miðflokk og landsbyggðarhluta Vinstri grænna. En ráðherra hlýtur helst að horfa til flokksmanna í sjálfum Framsóknarflokknum.

 

Þá gæti nafn Karls Garðarssonar komið upp en hann er með áratuga reynslu að baka á ýmsum fjölmiðlum, blöðum, útvarpi og sjónvarpi. Þá sat hann eitt kjörtímabil á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík og þótti ágætur þingmaður. Í fljótu bragði sér maður ekki annan flokksmann menntamálaráðherrans með svipaðan bakgrunn og Karl Garðarson. Hann ætti að geta ráðið vel við embætti útvarpsstjóra.

 

Komi til þess að menntamálaráðherra skipi mann úr öðrum flokki en Framsókn í embættið þá myndi það ekki gerst nema í skiptum fyrir eitthvað annað embætti sem viðkomandi flokkur réði yfir. Nafn Ólínu Þorvarðardóttur hefur verið nefnt en hún hefur víðtæka reynslu á ýmsum sviðum og hefur átt sæti í borgarstjórn Reykjavíkur og á Aþingi fyrir Samfylkinguna. Áður var hún fréttamaður á sjónvarpinu hefur einnig  verið skólameistari á Ísafirði og sinnt margháttaðri fræðimennsku. Hún er hámenntuð og menningarlega sinnuð. Hins vegar verður ekki séð hvað Samfylkingin gæti boðið í skiptum til Framsóknar, nema þá helst í borgarkerfi Reykjavíkur.

 

Þegar embætti af þessu tagi losna, þá minna þreyttir Alþingismenn gjarnan á sig. Í því sambandi hefur Birgir Ármannsson verið nefndur. Hann væri þó betur til þessa verks fallinn en ýmsir aðrir sjálfstæðismenn-og konur sem fallið hafa í skuggann og leita ljóssins að nýju. Auk þess hafa einhver nöfn úr þessari átt verið nefnd í glensi en engri alvöru.