Hver valdi benedikt til skattpíninga?

Einkennileg háttsemi Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar, vekur upp ýmsar spurningar.
 
Benedikt vann merkilegt starf við að hafa forystu um að stofna Viðreisn á síðasta ári og leiða þennan nýja flokk gegnum kosningar þar sem flokkurinn fékk 10,5% atkvæða og sjö menn kjörna á þing.
 
Viðreisn var stofnuð um skýr stefnumál og flokkurinn varð einnig til vegna svika annarra flokka. Viðreisn hét því að takast á við gjaldmiðilsvandann, berjast fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald ESB-viðræðna og koma fram grundvallarbreytingum á gjaldtöku í sjávarútvegi og breytingum á ríkisaðstoð við landbúnað neytendum í hag.
 
Út á þessi stefnumál hlaut flokkurinn þó þetta fylgi sem dugaði honum til að komast í ríkisstjórn.
 
Við myndun ríkisstjórnarinnar hélt Benedikt Jóhannesson spilunum þétt að sér og samdi með þeim hætti að hann virðist hafa verið tilbúinn að fórna flestum stefnumálum og hugsjónum Viðreisnar fyrir það eitt að komast í stól fjármálaráðherra.
 
Sífellt fleira kemur á daginn sem veldur vonbrigðum með störf Benedikts og flokkurinn virðist þegar hafa tapað helmingi þess fylgis sem hann hlaut í kosningum fyrir hálfu ári.
 
Margir núverandi og fráfarandi stuðningsmenn Benedikts eru farnir að efast stórlega um pólitíska dómgreind hans. Allir sem til þekkja vita að Benedikt er gáfaður maður og hámenntaður. Enginn dregur það í efa. Dómgreind getur þó brugðist gáfufólki eins og okkur hinum. Sumir hafa pólitík í sér en aðrir ekki. 
 
Dagfari veltir því fyrir sér hvort Benedikt Jóhannesson sé endilega á réttum stað núna. Er hann réttur maður á röngum stað eða rangur maður á réttum stað? 
 
Hann er alla vega ekki réttur maður á réttum stað sem formaður Viðreisnar sem tapar helmingi fylgisins á nokkrum mánuðum og yfirgefur hugsjónir sínar, stefnu og kosningaloforðin.
 
Ber það vott um góða dómgreind Benedikts að semja ESB-málin út úr stjórnarsáttmálanum og fallast á eitthvert fikt í lok kjörtímabilsins varðandi þetta helsta hugsjónamál Viðreisnar?
 
Ber það vott um góða dómgreind Benedikts að semja frá sér sem fjármálaráðherra yfirstjórn Seðlabanka Íslands en gjaldmiðlamálin voru eitt helsta kosningamál Viðreisnar?
 
Ber það vott um góða dómgreind Benedikts að svíkja gefin kosningaloforð um að hækka ekki VSK á ferðaþjónustu og láta frænda sinn forsætisráðherrann plata sig út í þessa illa grunduðu aðför að þeirri aðvinnugrein sem ber nú uppi hagvöxt í landinu?
 
Ber það vott um góða dómgreind Benedikts að svíkja atvinnulífið um lækkun á atvinnuleysistryggingargjaldinu eins og búið var að lofa núna?
 
Ber það vott um góða dómgreind Benedikts að láta ríkið selja frá sér Vífilsstaðalandið á gjafverði til Garðabæjar. Gjörningurinn var drifinn af um páskahátíðina þegar þingið var í leyfi.
Var þessi afleikur fjármálaráðherra ef til vill krafa frá forsætisráðherranum til að gleðja Garðbæinga? Hagsmuna hverra var Benedikt að gæta?
 
Sitthvað fleira mætti nefna en bíður betri tíma.
 
Kjarni máls er þessi: Benedikt hefur yfirgefið flest helstu grundvallarmál Viðreisnar og getur sér helst orð fyrir skattpíningaráráttu. Hverjir kusu hann til skattpíninga? Ekki kjósendur Viðreisnar.
 
Með sama áframhaldi verða örlög Benedikts Jóhannessonar þau að keppa við Steingrím J. Sigfússon í skattpíningu.
 
Kjósendur Viðreisnar hafa áttað sig á þessu. Helmingur þeirra hefur þegar yfirgefið flokkinn.
 
Karlinn í brúnni fiskar ekki. Þegar svo er, þá þarf að grípa til viðeigandi aðgerða.
 
 
rtá.
 
 
 
 
Get