Þeir sem þekkja vel til í innsta hring Sjálfstæðisflokksins segja að Bjarni Benediktsson sé orðinn hundleiður á stjórnmálavafstrinu og hafi um nokkurt skeið velt fyrir sér heppilegri útgöngu af stjórnmálasviðinu.
Vandinn er bara sá að hann sér engann eftirmann í embætti formanns sem hann gæti sætt sig við. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra gæti alveg hugsað sér formannsstólinn - en Bjarni og aðrir flokkseigendur telja hann ekki í sínu liði. Óttast reyndar styrk Gulla innan flokksins.
Bjarni hefur verið þingmaður frá 2003 og formaður flokksins frá 2009 eða í rúm níu ár. Fáir hafa verið formenn flokksins lengur en það. Bjarni hefur leitt flokkinn í kosningum 2009, 2013, 2016 og 2017. Þrennar af þessum fernum kosningum hafa skilað Sjálfstæðisflokknum lakasta fylgi sem hann hefur hlotið frá upphafi.
Sjálfstæðisflokkurinn er undir forystu Bjarna að festast í 20-25% fylgi en hefur lengstum verið með 35-40% stuðning, síðast í kosningunum 2007 með 37% fylgi.
Margir flokksmenn sjá að Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki reka af sér spillingarsvipinn og einkenni sérhagsmunagæslu á meðan Bjarni gegnir formennsku í flokknum. Menn sjá flokkinn ekki eflast á landsvísu að óbreyttu og erfitt er að una við fjórðungsfylgi eða minna.
Til marks um veika stöðu flokksins má benda á hvernig honum mistekst enn að komast til valda í borgarstjórn Reykjavíkur sem áður var höfuðvígi flokksins og krúnudjásn. Áfram engist Sjálfstæðisflokkurinn þar í valdalausum minnihluta og þarf að gera sér að góðu félagsskap við Miðflokk og öfgasósíalista. Leiðtogi flokksins í borgarstjórn gerir sig stöðugt að athlægi.
Bjarni Benediktsson getur kallað saman landsfund þegar honum sýnist. Það mun hann ekki gera fyrr en hann hefur fundið eftirmann sinn. En hver á það að vera? Enginn úr núverandi þingflokki virðist geta ráðið við verkefnið - nema Guðlaugur Þór - en klíka formannsins vill hann ekki.
Bent hefur verið á að landsfundur hafi kosið varaformann og ritara í “forystu” flokksins. Menn skella bara upp úr ef önnur hvor þeirra er nefnd sem hugsanlegur formaður. Hvorug kemur til greina. Þó flokkurinn sé fátækur af forystufólki um þessar mundir, er hann þó ekki bláfátækur!
Því hefur verið velt upp hvort ekki verði reynt að sækja formann í stað Bjarna út í atvinnulífið eða jafnvel í annan flokk eins og gert var þegar Páll Magnússon tók efsta sætið í Suðurkjördæmi nýkominn úr Samfylkingunni. Halla Tómasdóttir stóð sig vel í forsetakosningunum, Katrín Olga Jóhannsdóttir, formaður Viðskiptaráðs, er í flokknum og eins þykir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA mælskur enda gamall Morfísmaður.
Já, vel á minnst. Páll Magnússon. Er hann ekki maðurinn?
Rtá.