Guðni Th. Jóhannesson hefur nú gegnt embætti forseta af myndarskap í sex ár. Tíminn líður hratt og eftir tæp tvö ár fara fram forsetakosningar enn á ný. Guðni hefur lýst því yfir að hann hyggist ekki sækjast eftir embættinu lengur en 12 ár í mesta lagi. Enginn veit hvað forsetinn hugsar sér hvað þetta varðar, en víst er að annað hvort lýkur hann forsetaferli sínum árið 2024 eða 2028.
Vinsældir forsetans eru miklar og hann nýtur ómældrar virðingar meðal landsmanna. Honum liggur því ekkert á að láta staðar numið á þessum vettvangi. En hvað vill hann sjálfur? Á það hefur verið bent að hann er í launalausu leyfi frá embætti prófessors við Háskóla Íslands og hann getur horfið til þeirra starfa hvenær sem honum hentar. Guðni er á besta aldri, rúmlega fimmtugur, þannig að hann getur átt langa og farsæla starfsævi fyrir höndum eftir að forsetatíðinni lýkur.
Þeir sem þekkja til forsetans vita að hann er ástríðugrúskari og snjall sagnfræðingur sem hefur yndi af því að rannsaka og skrifa mikilvægar bækur. Eitt besta dæmið um það er ævisaga Gunnars Thoroddsen sem Guðni skrifaði við góðan orðstýr. Bókin vakti mikla athygli og var á lista yfir metsölubækur árið sem hún kom út. Þá sendi hann nýlega frá sér mikið rit um landhelgismálið og á þar enn verk að vinna. Enginn skyldi því útiloka að forsetinn léti átta ár á forsetastóli nægja og hyrfi af þeim vettvangi með miklum sóma árið 2024. Annars árið 2028.
Í ljósi þessa þarf ekki að koma á óvart þótt farið sé að velta því fyrir sér hverjir gætu komið til greina sem eftirmenn Guðna á forsetastóli. Fram til þessa hafa forsetar Íslands annað hvort komið úr röðum stjórnmálamanna eða úr heimi menningar og fræða.
Allt frá árinu 1968 hefur val á forsetum verið nokkuð óvænt í byrjun ferils þeirra. Þegar Kristján Eldjárn var fyrst kjörinn árið 1968 átti kjör hans stuttan aðdraganda. Flestir höfðu gert ráð fyrir því að Gunnar Thoroddsen yrði kjörinn og tæki við embættinu af tengdaföður sínum, Ásgeiri Ásgeirssyni. Svo varð hins vegar ekki, mörgum að óvörum.
Þegar Vigdís Finnbogadóttir náði kjöri fyrst kvenna, árið 1980, höfðu fáir látið sér það til hugar koma nokkrum mánuðum fyrr. Sextán árum síðar hlaut Ólafur Ragnar Grímsson yfirburðakosningu þó svo að Sjálfstæðisflokkurinn tefldi fram,honum til höfuðs, virtum dómara, syni fyrrum forsætisráðherra og formanns flokksins. Þegar Ólafur Ragnar lét svo af embætti árið 2016 létu margir reyna á styrk sinn og stuðning. Þar á meðal fyrrum forsætisráðherra, Davíð Oddsson, sem galt afhroð í kosningunum, lenti í fjórða sæti og fékk einungis stuðning 13 prósent kjósenda. Hugmyndin um Guðna Th.Jóhannesson kom seint fram en fékk strax frábærar viðtökur. Hann hlaut góða kosningu og ávann sér strax virðingu og traust þjóðarinnar.
Eins og sjá má af framansögðu er varlegt að spá um möguleg forsetaefni langt fram í tímann. En hér skal þó bent á nöfn tveggja manna sem gætu sómt sér vel í þessu mikilvæga embætti og eru báðir á góðum aldri til að taka við embættinu, hvort heldur væri árið 2024 eða 2028. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lætur af því embætti í ársbyrjun 2024 samkvæmt samkomulagi flokkanna sem stýra borgarstjórn Reykjavíkur. Hann er reyndur stjórnmálamaður, vel menntaður og hefur til að bera alla þá kosti sem þurfa að prýða forseta Íslands. Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri, hefur allan starfsferilinn verið í forystu á menningarsviðinu, einkum í leikhúsum og einnig sem útvarpsstjóri. Hann er einnig vel menntaður, þrautreyndur stjórnandi og einstaklega fágaður í framkomu.
Bæði Dagur og Magnús Geir hafa til að bera gáfur og hæfileika á borð við þá sem gegnt hafa embætti forseta Íslands frá upphafi.
- Ólafur Arnarson