Hver sáttahöndin upp á móti annarri hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík

Á áttunda áratug síðustu aldar logaði Sjálfstæðisflokkurinn í illdeilum milli Geirs Hallgrímssonar formanns flokksins og Gunnars Thoroddsen varaformanns. Landsfundir á þessum tíma einkenndust af valdaátökum milli fylkinga innan flokksins sem studdu annan hvorn þessara merku stjórnmálamanna.

Á einum landsfundinum sem snérist mest um valdauppgjör milli þessara fylkinga tóku ýmsir flokksmenn til máls og reyndu að stilla til friðar. Sögðu að sættir væru lífsnauðsyn fyrir flokkinn. Þrátt fyrir þennan sáttatón sumra ræðumanna kraumaði klofningurinn og valdabaráttan. Erfitt var að botna í þróun mála á fundinum. Málflutningurinn gekk ekki upp.

Þá tók Davíð Oddsson, ungur borgarfulltrúi, til máls og greindi ástandið á fundinum: „Ég get ekki betur séð en hér sé hver sáttahöndin upp á móti annarri.“ Þetta var vel orðað og náði kjarna málsins. Á þessum tíma gat Davíð oft verið orðheppinn og skemmtilegur. Síðan eru liðin mörg ár.

Frá því að Geir og Gunnar tókust á í Sjálfstæðisflokknum af fullri hörku hefur alltaf verið órói, klofningur og átök innan flokksins. Mis illvíg en þó aldrei heilindi og friður. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að flokkurinn hefur skroppið saman í fylgi úr 40 prósentum niður í 20 til 25 prósent. Þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn misst völdin í Reykjavík, að því er virðist varanlega.

Árið 1994 náði svonefndur R-listi að hrifsa völdin af flokknum og síðan hefur leiðin legið niður jafnt og þétt ef undan er skilinn tíminn árið 2006 þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var valinn borgarstjóri. Því starfi gegndi hann uns samherjar hans í Sjálfstæðisflokknum stungu hann í bakið í anda þeirra átakastefnu sem ríkt hefur frá tíma Geirs og Gunnars.

Nú er að hefjast prófkjör hjá flokknum vegna borgarstjórnarkosninganna í vor. Andstæðar fylkingar í Reykjavík takast nú á. Annars vegar þeir sem fylgja Guðlaugi Þór Þórðarsyni að málum og hins vegar stuðningsmenn Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur.

Illt er á milli fylkinganna. Fullvíst má telja að niðurstaða prófkjörsins verði þannig að báðar fylkingar fái menn kjörna í einhver af sex til sjö efstu sætunum, sem mun þá leiða til þess að ekki verði um einhug að ræða innan hóps borgarfulltrúa flokksins. Ekki frekar en á því kjörtímabili sem er senn á enda. Þá tókust á fylkingar Eyþórs Arnalds og Hildar Björnsdóttur. Hildur studdi núverandi meirihluta í lykilmálum eins og varðandi flugvöllinn, borgarlínuna og Laugaveginn. Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur hefur ekki verið stjórntækur og hann verður það ekki heldur eftir kosningarnar í vor.

Í Morgunblaðinu í dag birtast margar greinar og auglýsingar vegna prófkjörsins. Stressið og örvæntingin skín skært í gegn. Ekki hvað síst vekur athygli auglýsing frá Bolla Kristinssyni, húseiganda við Laugarveg. Hann býr á Spáni tíu mánuði á ári en vill samt ráða því hvernig borgaryfirvöld skipuleggja einstök hverfi í Reykjavík, einkum ef það getur hjálpað upp á einkahagsmuni Spánarbúans. Bolli hefur eytt ómældum fjármunum níðauglýsingar um borgarstjórann í Reykjavík. Þær hafa ekki verið neinum til sóma og ekkert hjálpað til við að hysja upp fylgi Sjálfstæðisflokksins og Miðflokks, sem reyndar virðist vera að þurrkast alveg út í borginni.

Hálfsíðuauglýsing Bolla beinist nú gegn Hildi Björnsdóttur vegna þess að hún hefur stutt sum af þeim góðu málum sem meirihlutinn hefur beitt sér fyrir. Auglýsing Bolla hefst svona: „Hildur Björnsdóttir ein borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði með Degi B og meirihlutanum um heilsárs lokun Laugavegar fyrir fjölskyldubílum.“

Nú beitir Bolli spjótum sínum að Hildi vegna þessarar afstöðu. Erfitt er að segja til um hvort þetta framtak Bolla skaðar Hildi eða hjálpar henni í prófkjörsbaráttunni. Frekar má ætla að þetta verði vatn á myllu hennar. Hún gæti frekar lent í erfiðleikum gagnvart mörgum eldri flokksmönnum í borginni sem enn þá hafa illan bifur á Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, en hann og eiginmaður Hildar eru nánir viðskiptafélagar og hafa verið lengi. Flokksmenn spyrja hvort æskilegt sé að hafa Jón Ásgeir sem „aftursætisbílstjóra“ hjá flokknum í Reykjavík. Víst er að Davíð Oddsson tekur því ekki fagnandi – og það munar um minna í flokknum.

Í greinarskrifum frambjóðenda ber nokkuð á gagnrýni á fyrirhugaða borgarlínu sem er jafnvel talin vera „óraunhæf og gamaldags“. Reynt er að stilla málinu upp sem einkaframtaki Dags borgarstjóra og meirihlutans. Sýnir það málefnafátækt og örvæntingu sem hittir sjálfstæðismenn fyrir sjálfa.

Þegar samningur um borgarlínu milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins var undirritaður við hátíðlega athöfn stóðu allir saman að gerð samningsins – nema Eyþór Arnalds og sumir aðrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, ásamt viðhengi sínu, Vigdísi Hauksdóttur. Bæði Eyþór og Vigdís hafa gefist upp og játað sig sigruð.

Undir samninginn skrifuðu með brosi á vör: Formaður Sjálfstæðisflokksins, formaður Framsóknar, formaður Vinstri grænna, borgarstjórinn í Reykjavík, studdur af öllum meirihlutanum ásamt Hildi Björnsdóttur, bæjarstjóri Kópavogs, bæjarstjóri Seltjarnarness, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, bæjarstjóri Garðabæjar og bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Allir þessir bæjarstjórar eru í Sjálfstæðisflokknum.

Formaður framkvæmdastjórnar um borgarlínu er dýralæknirinn og fyrrverandi fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Árni Matthíesen, en framkvæmdastjórinn er fyrrverandi formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Borgarlínan er innmúruð í Sjálfstæðisflokkinn þannig að gagnrýni frambjóðenda flokksins hittir flokkinn sjálfan fyrir.

Þá hafa menn áhyggjur af því að listi flokksins muni líta þunglamalega út, sérstaklega ef þannig tekst til í prófkjörinu að eldri frambjóðendur raðist í nokkur af sex til sjö efstu sætunum. Þá er meðal annars verið að tala um Kjartan Magnússon, Friðjón Friðjónsson, Mörtu Guðjónsdóttur og Þorkel Sigurlaugsson. Þau eru ekki beinlínis fulltrúar ungu kynslóðarinnar. Ef listi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík skartar þessum frambjóðendum verður erfitt – nánast vonlaust – að heyja frísklega kosningabaráttu fyrir óstjórntækan Sjálfstæðisflokk í borginni.

- Ólafur Arnarson