Ritstjóri Morgunblaðsins hefur í tæpan áratug beitt öllum brögðum til að reyna að nota blaðið í málflutningi til varnar misgjörðum sínum frá því hann gegndi stöðu seðlabankastjóra og átti stóran þátt í að kalla bankahrunið 2008 yfir Íslendinga. Davíð er gjarnan nefndur „höfundur hrunsins“. Víst er að fleiri lögðu sitt af mörkum til að ýta Íslandi fram af brúninni. Bankar og ýmis stórfyrirtæki fóru ógætilega og skuldsettu sig umfram heppileg mörk, stjórnmálamenn sváfu á verðinum en þær eftirlitsstofnanir sem höfðu vald til að grípa inn í og afstýra harmleiknum brugðust algerlega. Þar er að sjálfsögðu átt við Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands.
Áskrifendum Morgunblaðsins hefur líkað svo illa við að blaðið hafi verið notað í einkennilegum málflutningi ritstjórans að þeim hefur fækkað um helming frá því hann tók við stöðu sinni á blaðinu. Þegar nýjir eigendur tóku við rekstri Morgunblaðsins árið 2009 eftir að bankar höfðu fellt niður milljarða af gömlum skuldum, þá var fjöldi áskrifenda blaðsins nærri fjörtíu þúsund. Eftir að eigendurnir, sem flestir koma úr sjávarútvegi og landbúnaði, réðu Davíð til blaðsins fækkaði áskrifendum mikið og svo jafnt og þétt. Nú munu þeir vera komnir niður í átján þúsund. Um algert hrun er að ræða sem þarf ekki að koma á óvart í ljósi þess hve umdeildur ritstjórinn er og illa þokkaður í stórum hópum landsmanna.
Í ljósi þessa er stórkostlega fyndið – eða eigum við að segja grátbroslegt – að sjá grein sem birt er í Morgunblaðinu sl. laugardag í miðopnu sem yfirleitt er lögð undir skrif þeirra sem ritstjóranum líkar hvað best við. Þarna birtast ávalt greinar eftir Hannes Hólmstein, Björn Bjarnason, Jón Steinar, Hjörleif Guttormsson, Eyþór Arnalds, Jón Bjarnason og Sigmund Davíð Gunnlaugsson. En á laugardaginn er birt grein eftir Kristján nokkurn Hall. Hver er Kristján Hall? Er þar á ferð maður sem hefur getið sér orð í þjóðmálaumræðunni eða gegnt mikilvægum stöðum í þjóðfélaginu? Nei, ekki er vitað til þess. En fyrir liggur að hann er á áttræðisaldri og svo sem allt gott um það að segja.
En hvað sagði Kristján Hall í grein sinni sem er svo merkilegt að það verðskuldi viðhafnarsess í Mogga? Hann sagði m.a. orðrétt:
„Því er Morgunblaðið svona víðlesið að ritstjórinn er slíkur ágætismaður og á þvílíka samleið með lesendum sínum að ekki verður saman jafnað.“
Vissulega verður samleiðin nánari eftir því sem áskrifendunum fækkar. Miðaldra og yngra fólk er að mestu horfið úr þeim hópi. Og þeir sem eftir eru tilheyra kynslóð Davíðs og Kristjáns Hall.