Gísli Freyr Valdórsson ritstjóri Þjóðmála ritaði áhugaverðan pistil í Viðskiptamoggann í síðustu viku um framgöngu Samkeppniseftirlitsins (SKE) undir fyrirsögninni „Hrottaskapur í Borgartúni“. Vert er að hrósa ritstjóranum fyrir hugrekkið að koma fram á ritvöllinn og gagnrýna þessa stofnun þar sem forstjóri SKE hikar sjaldan við að svara gagnrýni af mikilli hörku. Raunar er athyglisvert að í löngu viðtali við Stundina í júlí veltir Páll Gunnar Pálsson forstjóri SKE því upp að stjórnvöld eigi að refsa fjölmiðlum sem gagnrýna SKE fyrir framgöngu sína gagnvart fyrirtækjum og atvinnulífi. Þrátt fyrir að Páll Gunnar setji orð sín fram sem stuðning við smærri fjölmiðla velkist enginn í vafa um að hann vill múlbinda alla stóra fjölmiðla aðra en RÚV, enda eru það Viðskiptablaðið, Morgunblaðið og Fréttablaðið sem helst hafa haldið uppi gagnrýnni umræðu um SKE
Gísli Freyr tekur dæmi um rannsókn SKE á Eimskip og Samskip vegna landflutninga sem hófst gagnvart félögunum með húsrannsókn haustið 2013. Engin niðurstaða hefur fengist, stjórnendur Eimskips hafa mátt sæta því að hafa stöðu grunaðra manna, upplýsingum um rannsóknina var haustið 2014 lekið til RÚV sem fjallaði um málið með tilþrifum út frá hagsmunum SKE og var málið þannig flutt í ríkisfjölmiðlinum, en ekki fyrir dómi eins og vera ber í réttarríki. Engin niðurstaða var í augsýn og rannsókn SKE ætla að verða endalaus. Færa má góð rök fyrir því að ef ekki tekst að finna glæpinn á átta árum séu talsverðar líkur á að engan glæp sé að finna.
Þrátt fyrir að enginn glæpur hafi fundist hefur þessi átta ára rannsókn reynst Eimskip dýrkeypt og að lokum afréð félagið að ganga nauðugt til samninga við SKE, játa á sig einhverjar sakir og greiða 1,5 milljarð í sekt.
Gísli Freyr bendir í pistli sínum á að Aldís Hilmarsdóttir, sem þá var í fullu starfi sem framkvæmdastjóri húsnæðisbótasviðs Íbúðalánasjóðs (ÍLS) en hafði áður verið yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hafi sinnt rannsóknarstörfum vegna málsins fyrir SKE samhliða sínu fulla starfi hjá ÍLS og þegið fyrir það um 7,5 milljónir króna.
SKE virðist standa fullkomlega á sama um hagsmuni fyrirtækja sem heyra undir eftirlitið. Nýverið hafa orðið tveir stórir samrunar þar sem olíufélög og risar á dagvörumarkaði renna saman, annars vegar Hagar og Olís og hins vegar Festi og N1. Við slíka samruna setja samkeppnisyfirvöld gjarnan skilyrði fyrir samrunanum auk þess sem skipaður er óháður kunnáttumaður til að fylgjast með því að skilyrðin séu uppfyllt. Við sameiningu Haga og Olís var Einar Gautur Steingrímsson skipaður og Lúðvík Bergvinsson vegna Festar og N1. SKE hafnaði hverri tillögunni á fætur annarrar um óháðan kunnáttumann fyrir Festi og N1. Sá eini sem kom til greina var Lúðvík Bergvinsson.
Nú liggur fyrir að kostnaður vegna starfa Lúðvíks er kominn upp í um 60 milljónir á sama tíma og kostnaður vegna starfa Einars Gauts er innan við 10 milljónir. Hluti skýringarinnar á þessum mikla mun er að Lúðvík fékk heimild SKE til að kaupa sérfræðiaðstoð vegna þess að hann hefði takmarkaða þekkingu á olíusölugeiranum. Skýtur þetta nokkuð skökku við í ljósi þess hve mikla áherslu SKE lagði á að einungis Lúðvík kæmi til greina sem óháður „kunnáttumaður“. Gísli Freyr Valdórsson gefur til kynna að hann viti hvers vegna þessi ofuráhersla var lögð á að fá Lúðvík í verkefnið í lokaorðum pistilsins þegar hann víkur að því hvernig SKE vék sér undan því að svara einföldum spurningum Símans í tengslum við útboð á sýningarrétti enska boltans nýlega. Gísli Freyr telur það vera vegna þess að SKE vilji halda því opnu hvernig Síminn verði höndlaður á næstu mánuðum. Lokaorð hans eru: „Á aðstoðarforstjóri Samkeppniseftirlitsins ekki einhvern góðan vin sem hægt er að greiða fyrir þá vinnu í verktöku?“
Gísli Freyr bendir í grein sinni á að oft berast mikil tíðindi frá SKE á haustmánuðum þegar fjárlagavinna stendur sem hæst. Húsrannsóknin hjá Eimskip og Samskip var að hausti. Lekinn til RÚV var að hausti. Gott getur verið að minna á sig þegar úthlutað er úr sameiginlegum sjóðum.
Oft hefur komið upp umræða um að eftirlitskerfið á Íslandi sé of umsvifamikið og dýrt. Rætt hefur verið um að spara mætti mikla fjármuni og efla eftirlit um leið með því að sameina eftirlitsstofnanir. Hvers vegna í ósköpunum erum við með Samkeppniseftirlit, Póst- og fjarskiptastofnun, Fjölmiðlanefnd og Neytendastofu sem sjálfstæðar einingar með eigin yfirbyggingu, eigin yfirstjórn, hver á sínum stað? er einhver glóra í þessu?
Stundum er spurt hver eigi að passa upp á verðina. Hver á að hafa eftirlit með eftirlitinu? Er ekki mikilvægt að einhver geri það?
Ólafur Arnarson