Eftir að Páll Magnússon þingmaður fór að stjórna útvarps-og sjónvarpsþætti á ljósvakastöðinni K-100 hjá Morgunblaðinu, fóru gárungarnir að velta því fyrir sér hvenær mætti búast við að hann tæki að sér þátt á sjónvarpsstöðinni OMEGA en það er nánast eina núlifandi og fyrrverandi sjónvarpsstöðin sem Páll hefur ekki verið á í lengri eða skemmri tíma.
Páll hefur verið fréttamaður, fréttalesari, þáttastjórnandi eða yfirmaður á Stöð 2, Sýn, RÚV, ÍNN og Hringbraut og stoppað mislengi við á hverjum stað. Nú bætist K-100 við og þá er varla neitt annað eftir en kristilega stöðin OMEGA. Páll gæti vafalaust notið sín vel þar á bæ og hrópað “halelúja” eins og hann gerir í þinginu þegar Bjarni Ben segir honum að gera það.
Til viðbótar við þær sjónvarpsstöðvar sem fyrr eru taldar, stýrði Páll útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni um tíma árið 2016 eftir að Sigurjón M.Egilsson sagði upp starfi sínu þar. Páll stoppaði stutt við á Sprengisandi en á þeim tíma var hann að leita sér að flokki til að fara í framboð fyrir. Niðurstaðan varð sú að hann leiddi lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi eftir að bæði Samfylkingin og Viðreisn höfðu afþakkað þjónustu hans.
Það er svo umhugsunarefni út af fyrir sig hvort það getur talist viðeigandi að Alþingismaður stýri útvarps-og sjónvarpsþætti. Engin lög banna það. En spyrja má hvort það er siðferðislega rétt. Á því leikur vafi.
Trúlega bara “löglegt en siðlaust” eins og annar krati sagði á sínum tíma.
Rtá.