Öllum má vera ljóst að Davíð Oddsson mun tapa forsetakosningunum þann 25. júní. Ekki bara tapa heldur skíttapa. Fylgi hans er ekki að lyftast neitt að ráði. Hann er að festast í þeim 20% sem margir höfðu spáð honum. Hann kemst ekki ofar. Nýjasta könnun 365 miðla mælir hann með 19,7% á meðan Guðni Th Jóhannesson, verðandi forseti, er með 65% fylgi.
Ljóst er að forsetaframboð Davíðs er mesta sneypuför seinni áratuga á Íslandi. Davíð hafði á stjórnmálaferli sínum yfirbragð sigurvegara og komst úr úr pólitíkinni án þess að tapa kosningum þó svo mjög hafi verið farið að halla undan fæti hjá honum. Hnignunarskeið hans hófst ekki að ráði fyrr en í Seðlabanka Íslands. Hann réði aldrei við verkefni bankastjóra þar, átti aldrei að fara í það starf og endaði með því að setja bankann á hausinn upp á 300 milljarða króna. Margir líta þannig á að hann hafi átt sinn ríka þátt í að ýta hruninu af stað enda rak ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hann öfugan út úr bankanum. Vísaði honum á dyr.
Þó brottrekstur hans úr seðlabankanum hafi verið niðurlægjandi, er það ekkert í samanburði við þá sneypuför sem forsetaframboðið stefnir í að verða. Í sjónvarpsþætti í gærkveldi var Davíð aumkunarverður. Ekkert sást lengur af þeim sjarma og krafti sem einkenndi hann á síðari hluta síðustu aldar. Hann er ekki lengur fyndinn eða skarpur í viðtölum og framkomu. Við blasir gamall, lúinn og svekktur karl sem reynir að lifa á fornri frægð sem er reyndar mjög umdeild og óspennandi nú orðið.
Davíð Oddson er kominn langt fram yfir síðasta söludag í stjórnmálum. Hann kallar yfir sig endanlega niðurlægingu með þessu framboði. Það er engum að kenna nema honum sjálfum ásamt meðvirka og gagnrýnislausa jáliðinu í kringum hann.
Varðandi forsetaframboð hans er ekkert eftir spennandi nema að velta fyrir sér hvenær hann dregur framboð sitt til baka og játar sig sigraðan. Hann er hinn eini sanni BIGGEST LOSER þó ekki sé með sama hætti og fjallað er um í sjónvarpsþáttum með því nafni. Það hafa engin kíló tapast. En það sem eftir var af ímynd og mannorði er fokið út í veður og vind.
Þegar þessari vanhugsuðu ferð lýkur, þá mun Davíð snúa aftur á Morgunblaðið í náðarfaðm sægreifanna með skottið milli lappa. Þá getur hann haldið áfram að vera dýrasti leigupenni vorra tíma og dreift mýkju í allar áttir eins og verið hefur síðustu 7 árin. Ætla má að nýji forsetinn, Guðni Th, fái sinn skammt af óþverranum en það skiptir engu máli fyrir hann. Það verður einungis til að styrkja hann í sessi, gæðastimpill.
Davíð Oddsson er búinn. Hans tími kom fyrir löngu. Hans tími er liðinn.