Því er jafnvel haldið fram að lausir samningar við þessa stétt gætu skemmt fyrir útboðinu. Sú staðhæfing stenst trúlega ekki skoðun því verði ósamið þegar útboðinu lýkur og nýjir hluthafar koma að félaginu, er líklegt að þeir muni kalla eftir nýjum lausnum varðandi
kjarasamninga félagsins. Þá kæmi til álita að semja við nýtt stéttarfélag flugþjóna og flugfreyja með allt öðrum hætti en tíðkast hefur.
Einnig hlýtur að koma til skoðunar hvort starfssvið þessa hóps starfsmanna verði endurmetið frá grunni.
Verkefni flugþjóna og flugfreyja um borð í flugvélum felast einkum í öryggisgæslu og því að færa farþegum mat og drykki af ýmsu tagi.
Mjög stór hluti millilandaflugferða frá Íslandi taka um þrjár klukkustundir. Spyrja má hvort nauðsyn sé á að farþegar neyti matar og drykkja
á svo stuttum leiðum. Unnt væri að leysa hið mikilvæga öryggishlutverk með sérhæfðum öryggisvörðum í stað flugþjóna og flugfreyja.
Þegar um mun lengri flugferðir er að ræða má ætla að þorri farþega sækist eftir hefðbundinni þjónustu varðandi mat og drykk.
Þá væri sjálfsagt að veita þá þjónustu. En slík tilvik eru mun fátíðari en hefðbundið þriggja tíma flug milli Íslands og flestra borga í Evrópu sem flogið er til.
Ef þessi leið yrði valin þá leiddi það til þess að fjöldi flugþjóna og flugfreyja í þjónustu Icelandair yrði einungis lítill hluti af þeim mikla fjölda sem starfað hefur þar á undanförnum árum. Í ljósi þeirra átaka sem orðið hafa um starfskjör þessarar stéttar þyrfti ekki að
koma á óvart að Icelandair vildi hugsa þessi störf upp á nýtt og leita óhefðbundinna leiða til að reka flugfélagið með minni tilkostnaði sem gerði það samkeppnishæfara í hörðum heimi alþjóðaflugsins.
Náist samningar ekki á næstunni má ætla að nýjir hluthafar félagsins muni leita nýrra leiða til að gera reksturinn arðvænlegri og samkeppnishæfari. Þá hlyti uppstokkun á þjónustu um borð að koma til álita með þeim hætti sem hér er lýst.