Ný Gallup skoðanakönnun hmá teljast nokkuð áfall fyrir ríkisstjórnarflokkana. Forystumönnum þessara flokka getur ekki verið rótt enda eru allir þrír flokkarnir á niðurleið. Enginn þó eins og forystuflokkurinn, Vinstri græn, sem hefur tapað 4 þingmönnum af 11 og misst um þriðja hvern kjósanda sinn frá í kosningunum sl. haust. Þessi niðurstaða er í samræmi við allar skoðanakannanir í allt sumar. Niðurstaðan er ekki síst áfellisdómur yfir forsætisráðherra og formanni VG, Katrínu Jakobsdóttur, sem æ fleir sjá að ræður ekki við verkefni sitt.
VG mælist nú með 11.7% en fékk 16.9% í kosningunum. Sjálfstæðisflokkur mælist með 22.7% en fékk 25.3% í kosningunum. Flokkurinn tapar þingmanni og er kominn niður í 15 þingmenn samkvæmt þessari könnun. Framsóknarflokkurinn fengi einungis 8.2% atkvæða og 5 þingmenn kjörna en tapaði þremur þingsætum. Framsókn er í alvarlegri kreppu og ekki hjálpar tilvist Miðflokksins sem er vitanlega klofningur úr gamla Framsóknarflokknum. Ekkert bendir til sátta milli þessara flokka. Frekar að illska milli þeirra fari vaxandi.
Fylgi ríkisstjórnarflokkanna er samtals 42.6% samkvæmt Gallup könnuninni og hefur ekki mælst lægra á þessu kjörtímabili. Á sama tíma bæta miðflokkarnir við sig fylgi jafnt og þétt. Samfylking, Viðreisn og Píratar mælast nú með 42% samtals en fylgi þeirra vex með hverjum mánuðinum. Þessir þrír flokkar eru Evrópusinnaðir andstætt ríkisstjórnarflokkunum.
Það hlýtur að vera ríkisstjórnarflokkunum mikið áhyggjuefni að fylgið hafi verið áfram á niðurleið í allt sumar þegar fá ágreiningsmál hafa verið á dagskrá. Nú kemur þingið saman og þá munu spjótin beinast að ríkisstjórninni vegna margra erfiðra mála. Þá má ætla að óvinsældir hennar aukist enn frekar. Framundan er harður vetur á vinnumarkaði, ekki munu vinsældir aukast við að reyna aftur að lækka veiðileyfagjöldin, ætla má að ágreiningur milli ríkisstjórnarflokkanna aukist vegna stefnu í skattamálum og sótt verður að ráðherrum vegna svikinna loforða, einkum gagnvart þeim sem standa höllum fæti í þjóðfélaginu. Sú umræða verður sérlega erfið fyrir Katrínu Jakobsdóttur og félaga hennar í VG. Katrín hefur verið í eilífum mótbyr allt frá myndun þessarar vandræðalegu ríkisstjórnar. Fátt hefur glatt hana eða flokk hennar, nema þá ferðir hennar til Brussel og Parísar þar sem hún hefur veðrað sig upp við NATO-stríðsherra og önnur fyrirmenni Evrópu. Ekki er víst að það hafi glatt kjósendur VG eins mikið og hana sjálfa. Alla vega bendir flóttinn frá VG ekki til þess!
Forysta VG er í tómu tjóni pólitískt. Katrín er á hraðri niðurleið. Svandís Svavarsdóttir engist í heilbrigðisráðuneytinu með fangið fullt af vandamálum. Hún er undir mikilli pressu frá sjálfstæðismönnum að innleiða tvöfalt heilbrigðiskerfi í auknum mæli, ekki síst með því að rýmka heimildir fyrir Klínikkina í Ármúla sem er í eigu fjölskyldu Bjarna Benediktssonar og innvígðra vina úr flokknum. Guðmundur Ingi umhverfisráðherra hefur engu komið í verk og er að mestu gleymdur. Steingrímur situr „á friðarstóli“ sem forseti Alþingis, sjálfur stríðsmaðurinn! Hann þykir heldur vandræðalegur í því hlutverki. Ekki varð hátíðarfundurinn á Þingvöllum til að hækka risið á honum eða Alþingi.
Staða VG er svo veik að flokkurinn verður að hanga í ríkisstjórn hvað sem það kostar. Það sama mætti segja um hina tvo flokkana, þó staða þeirra sé eitthvað skárri. Hræðsla þeirra allra við kosningar gerir það að verkum að ríkisstjórnin mun lafa áfram – þó hún sé rúin trausti.
Rtá.