Hneyksli er að lögreglan skyldi ekki vera til taks við ráðherrabústaðinn í gær þegar öskrandi skríll réðist að ráðherrum eftir ríkisstjórnarfund. Nokkrir tugir manna í gulum vestum söfnuðust þar saman og létu ófriðlega. Sólveig AnnaJónsdóttir fór fyrir þessum aðgerðarhópi sínum og öskraði ókvæðisorð að ráðherrum gegnum gjallarhorn. Bjarni Benediktsson var kallaður fasisti og Katrín Jakobsdóttir var sögð vera svikari. Fólkið lét ófriðlega og meinaði ráðherrum aðgang að bifreiðum þegar fundi lauk.
Furðu vekur að lögregla skyldi ekki vera á staðnum til að tryggja vettvang og halda uppi almannareglu. Atburðurinn átti sér nokkurn aðdraganda og lögregluliði var engin vorkunn að koma sér á vettvang áður en ríkisstjórnarfundi lauk og ráðherrar gengu af fundi undir hótunum og skrílslátum Eflingarfólks þar sem formaðurinn fór fremstur að vanda og sparaði ekki stóryrðin.
Ætli yfirmönnum lögreglunnar þyki þetta allt í lagi? Hefðu þeir viljað bera ábyrgð á því að einhver ráðherranna hefði orðið fyrir slysi við þessa aðför? Hvað segir ráðherra lögreglumála, Jón Gunnarsson, núna þegar lögreglan sefur á verðinum gagnvart að för sem gerð er að ráðherrum. Hvergi í siðmenntuðu ríki gæti það gerst að uppivöðslulið fengi óáreitt að komast í návígi við ríkisstjórnina með ógnandi tilburðum og hótunum. En hér gerðist það. Spyrja má hvers konar ríki Ísland er orðið?
Einn ráðherranna benti á að ríkisstjórnin ætti ekki í deilum við Eflingu, heldur stæði deilan milli þeirra og Samtaka atvinnulífsins, sem Efling ætti þá frekar að snúa sér til með kvartanir sínar.
Einnig vakti furðu að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra, skyldi láta undan hótunum formanns Eflingar og bjóða henni inn í ráðherrabústaðinn ásamt nokkrum úr árásarliðinu til að hlusta á þau ausa skömmum yfir ríkisstjórnina og kalla forsætisráðherrann svikara. Ljóst er að Katrín veit ekki sitt rjúkandi ráð vegna þessarar deilu sem snýst nú orðið einungis um harða vinstripólitík en ekki hagsmunagæslu fyrir launþega. Formaður sósíalistaflokksins, forystuflokksins í ríkisstjórn, er í vandræðum með félaga sína í Eflingu og virðist vera að fara á taugum.
- Ólafur Arnarson.