Nokkrir kvenskörungar eru á yfirsnúningi þessa dagana vegna þess að vinkona þeirra Katrín Olga Jóhannsdóttir var ekki endurkjörin í stjórn Icelandair Group hf. í lýðræðislegri kosningu sem fram fór í síðustu viku.
Visir.is fjallar um upphrópanir Rannveigar Rist, sem er forstöðumaður útibús Rio Tinto á Íslandi, og Steinunar Valdísar Óskarsdóttur starfmanns í stjórnarráðinu en þær tóku þátt í umræðum á vegum Ungra athafnakvenna á laugardag. Þær töluðu þar um “æpandi dæmi” og Steinunn sagði: “Horfið á hvernig er farið með þessa konu” og átti við Katrínu Olgu vegna þess að hún náði ekki kjöri í stjórn Icelandair Group. Málið virðist snúast um það að einhverjir karlmenn eigi að hafa brugðið fyrir hana fæti.
En róum okkur nú aðeins og lítum á nokkrar staðreyndir:
Hluthafar Icelandair Group eru 2.400 og þeir gátu allir tekið þátt í kosningu á aðalfundi félagsins sl. fimmtudag. Um 84% hlutafjár var nýtt í stjórnarkjörinu. Þessi hluthafahópur er margbreytilegur. Lífeyrissjóðir og aðrir sjóðir eiga stóra hluti en þeir ráða alls ekki öllu við stjórnarkjör. Fjöldinn lætur til sín taka og stærri hluthafar ganga alls ekki í neinum takti. Þeir taka ákvarðanir hver fyrir sig og velja þá til setu í stjórn sem þeir telja að geti orðið félaginu að mestu og bestu liði. Þegar öllu var á botninn hvolft og atkvæðin höfðu verið talin, þá var niðurstaðan einfaldlega sú að hluthfar félagsins höfðu metið stöðuna þannig að félaginu væri betur borgið með þeirri skipan stjórnar sem varð ofan á – og Katrín Olga reyndist vera utan við þá mynd.
Voru karlmenn að auka völd sín í stjórn Icelandair Group hf.? Nei, það var ekki raunin. Tveir úr fyrri stjórn voru ekki endurkjörnir. Einn karlmaður sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs og ein kona, Katrín Olga, sem gaf kost á sér til endurkjörs. Í stað þeirra voru kjörnir aðrir tveir stjórnarmenn; karlmaðurinn Guðmundur Hafsteinsson og konan Heiðrún Jónsdóttir. Karlmaður kom í stað karlmanns og kona kom í stað konu. Hvar er þá kynjahallinn? Rýrnaði hlutur kvenna í forystu félagsins? Nei. Hlutur kvenna er algerlega óbreyttur þarna. Kona í stað konu, karlmaður í stað karlmanns.
Í þessari umræðu hefur verið reynt að gera því skóna að sala Katrínar Olgu á öllum hlutabréfum sínum í félaginu á afar viðkvæmum og óheppilegum tíma hafi ráðið úrslitum. Sú fullyrðing stenst enga skoðun. Það var sérstaklega eina manneskja sem gagnrýndi þann ráðahag af hörku opinberlega. Það er konan Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir sem ritaði harðorða blaðagrein um málið á sínum tíma og taldi Katrínu Olgu hafa sýnt eigingirni og dómgreindarleysi með ákvörðun sinni. Ekki er vitað til þess að konan Svanhildur Nanna eigi stóran hlut í Icelandair Group og því hefur hún væntanlega ekki verið neinn örlagavaldur í þessu kjöri.
Í stað þess að reyna að kenna einhverjum vondum körlum um fall Katrínar Olgu, gæti verið ráð að rifja upp hvers vegna hún var kjörin í stjórn Icelandair Group árið 2009. Þá hafði Íslandsbanki eignast 40% hlut í félaginu eftir að fyrri hluthafar höfðu misst hlutabréf sín til bankans vegna skulda og verðfalls hlutabréfanna í hruninu. Þar var meðal annars um að ræða landskunna fjárfesta á borð við Einar Sveinsson, Karl Wernersson og Finn Ingólfsson. Birna Einarsdóttir bankastjóri valdi þá tvo stjórnarmenn, Sigurð Helgason og vinkonu sína Katrínu Olgu Jóhannsdóttir. Á árunum 2010 og 2011 seldi bankinn öll hlutabréf sín í félaginu og á lítinn eignarhlut í dag. Sigurður Helgason vék úr stjórn félagsins fyrir ári. Katrín Olga sat áfram og vildi vera lengur. En nú var bakland hennar horfið og greinilega ekki vilji þeirra hluthafa sem eftir eru að veita henni stuðning. Svona virkar lýðræðið í almenningshlutafélögum, hvort sem einstaka frambjóðendum líkar betur eða verr.
Reynt hefur verið að hnýta í lífeyrissjóði landsmanna og aðra fjárfestingarsjóði vegna þessa máls og það gefið til kynna að einhverjir vondir karlar ráði þar ríkjum og hafi ákveðið að koma illa fram við Katrínu Olgu.
Fjórir stærstu hluthafar Icelandair Group eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Stefnir sjóður, Lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna (LSR) og Gildi lífeyrissjóður. Vegna þessarar umræðu er athyglisvert að skoða hvernig stjórnir þessara sjóða eru skipaðar. Formaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna er Guðrún Hafsteinsdóttir. Í stjórninni sitja 4 konur og 4 karlar. Formaður Stefnis er Hrund Rúdolfsdóttir. Í stjórninni með henni situr Ragnhildur Sophusdóttir lögmaður og 3 karlar. Varaformaður LSR er Unnur Pétursdóttir. Í stjórninni sitja 4 konur og 4 karlar. Varaformaður Gildis er Harpa Ólafsdóttir. Í stjórninni sitja 4 konur og 4 karlar. Kynjajafnvægið verður varla mikið betra!
Að lokum má velta þvi fyrir sér hvort frétt Morgunblaðsins um að Birna Einarsdóttir bankastjóri hafi lagt að stjórn Borgunar að velja Katrínu Olgu vinkonu sína sem forstjóra Borgunar, hafi skaðað framboð Katrínar Olgu á aðalfundi Icelandair Group. Mörgum þótti það býsna langt gengið í einkavinavæðingu, ekki síst eftir að blaðið upplýsti að Íslandsbanki hafi ákveðið að skipta út tveimur stjórnarmönnum sínum í kjölfarið en stjórn Borgunar réði annan umsækjanda í þessa stóru forstjórastöðu. Þá var orðrómur um að Katrín Olga Jóhannsdóttir, fyrrverandi stjórnarmaður í Icelandair Group hf., hafi sótt fast að vera ráðin í framkvæmdastjórastöðu hjá félaginu þegar yfirstjórn félagsins var stokkuð upp í byrjun þessa árs. Því var hafnað.
Auðveldast er að kenna öðrum um þegar eitthvað fer útskeiðis. Í þessu máli er enginn sökudólgur annar en fyrirtækjalýðræði sem gjarnan er hampað á tyllidögum – ekki síst af Viðskiptaráði Íslands.
Rtá.