Hvar á að skila lyklunum?

Útreið stjórnarflokkana í nýjustu skoðanakönnun Gallup er slík að erfitt verður fyrir stjórnina að sitja áfram við völd eins og allt sé með felldu. Stjórnin lagði af stað með 38 þingmenn og 51% fylgi eftir síðustu kosningar vorið 2013. Nú er fylgi þeirra komið niður í 32% og samtals 23 þingmenn. Stjórnarflokkarnir hafa tapað 37% af því fylgi sem þeir fengu fyrir rúmum 2 árum. 

 

Ríkisstjórnin er kolfallin. Nýjasta skoðanakönnunin gerir ekki annað en að staðfesta þróun sem staðið hefur yfir allt þetta ár. Hér er ekki um neinar tilviljanir að ræða eða sveiflu sem rúmast innan skekkjumarka. Hér er um að ræða jafna og trausta þróun sem sýnir og sannar að þjóðin hefur fengið nóg af þessari ríkisstjórn sérhagsmuna í sjávarútvegi og landbúnaði. Fólk vill ekki lengur horfa upp á að hér sitji við völd ríkisstjórn sem er í eigu fárra og ríkra útgerðarmanna sem teygja sig æ lengra eftir völdum og yfirráðum yfir samfélaginu.

 

Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafði tapað miklu fylgi, þó ekki eins miklu og sú sem nú situr, þá stóð Bjarni Benediktsson í ræðustól alþingis og heimtaði með miklum hávaða að Jóhanna skilaði lyklunum að stjórnarráðinu því hún væri rúin trausti kjósenda eins og fram kæmi í skoðanakönnunum. Þetta var myndrænt og skýrt. Eitthvað sem fólk man og gott er að muna núna þegar ríkisstjórnin er komin í verri stöðu en Jóhönnustjórnin á þeim tíma þegar Bjarni heimtaði lyklana.

 

Vilji Bjarni Benediktsson vera samkvæmur sjálfum sér, þá hlýtur hann að tryggja að ríkisstjórn hans og Sigmundar Davíðs skili lyklunum að stjórnarráðinu strax.

 

Gömlu flokkarnir standa ráðþrota frammi fyrir 36% fylgi Pírata sem heldur áfram að vaxa. Kjósendur eru að krefjast nýrra flokka og nýrra tíma í íslenskum stjórnmálum. Samfylking og VG fengu sín tækifæri á síðasta kjörtímabili og stóðust prófið ekki. Sjálfstæðismenn og Framsókn hafa fengið sitt tækifæri og kjósendur hafa þegar gert sér ljóst að þeir ráða ekki við verkefnið, eru þegar fallnir á prófinu. Krafan hlýtur því að vera sú að stjórnin fari frá og að efnt verði til kosninga sem fyrst. Það er ekki boðlegt að láta þjóðina bíða í 20 mánuði eftir næstu kosningum.

 

Ein af ástæðum þessa hörmulega fylgis eru vandræðamál ýmissa ráðherra sem sýnt hafa mikinn skort á dómgreind. Má þar nefna lekamál Hönnu Birnu, sóðaskapinn í málum Illuga Gunnarssonar vegna samskipta við Orka Energy og ranga upplýsingagjöf til alþingis, klúðursmála Sigurðar Inga, m.a. vegna flutnings Fiskistofu, aulahátt Ragnheiðar Elínar varðandi náttúrupassann svo eitthvað sé nefnt. Könnunin var gerð áður en upp komst um vandræðamál Bjarna Ben.

 

Spurningin er bara þessi: Hvert á að skila lyklunum?