Áform Hvals hf. og Kristjáns Loftssonar um að hefja að nýju miskunarlaust dráp á stórhvelum við Ísland eru glapræði sem verður að stoppa með öllum tiltækum ráðum. Veiðar á langreyðum hafa legið niðri í tvö ár enda hefur reynst erfitt að selja hvalaafurðir og veiðar af þessu tagi hafa skilað peningalegu tapi hjá þeim sem hafa stundað þær. Að ekki sé talað um þann gífurlega skaða sem hvalveiðar valda þjóðarbúinu.
Hvalveiðar hafa verið bannaðar frá 1986 í flestum löndum enda þykja þær villimannslegar og óboðlegar nútímafólki. Þó þessi atvinnugrein hafi verið stunduð á árum og öldum áður, þá er ekki lengur unnt að forsvara þetta. Kröfur nútímans eru allt aðrar og siðferðisviðmið önnur en voru áður.
Út frá hreinum hagsmunum þjóðarbúsins er ekki hægt að forsvara hvalveiðar. Verði farið út í að drepa 209 stórhveli á Íslandi næsta sumar, mun það vekja heimsathygli og beina neikvæðu ljósi að Íslandi. Það mun skaða markaðsstarf útflutningsgreina í sjávarútvegi og iðnaði og ferðaþjónustan getur orðið fyrir áföllum vegna þessa. Ekki er hægt að una við það að hagsmunir útflutningsgreina Íslendinga verði skaðaðir vegna atvinnustarfsemi eins fyrirtækis sem hyggst veiða þessi dýr og vinna úr þeim afurðir sem ekki er einu sinni víst að unnt sé að selja. Vert er að hafa í huga að um 600.000 útleningar fara í hvalaskoðunarferðir á Íslandi ár hvert og greiða fyrir það. Um mikilvæga atvinnugrein er að ræða; manneskjulega og friðsama.
Nú þurfa allir að taka höndum saman. Alþingi verður að láta málið til sín taka. Ríkisstjórnin þarf að grípa inn í. Því er ekki síst beint til forsætisráðherrans sem er formaður Vinstri grænna en flokkurinn hefur um árabil haft yfirlýsta stefnu um að vera á móti hvalveiðum. Flokkurinn aðhyllist friðun hvala. Nú reynir á formann flokksins og forsætisráðherra. Hagsmunasamtök útflutningsfyrirtækja þurfa einnig að láta í sér heyra og sama gildir um náttúruverndarsamtök.
Og loks má nefna að því verður ekki trúað að hluthafar í Hval hf., sem eru farsælir fjárfestar og peningamenn upp til hópa, vilji leyfa Kristjáni Loftssyni að tapa meiri peningum á hvalveiðum en þegar er orðið. Kristján á einungis um 20% hlutafjár í félaginu sjálfur. Aðrir eiga því um 80% hlutabréfa í Hval hf. Hvers vegna í ósköpunum skyldu þessir hluthafar leyfa Kristjáni Loftssyni að skaða ímynd fyrirtækisins og þjóðarinnar með því feigðarflani sem dráp á stórhvelum er? Hluthafarnir hljóta frekar að taka höndum saman um að gæta eigin hagsmuna með því að ákveða að láta kyrrt liggja.
Hvalveiðar á Íslandi árið 2018 eru tímaskekkja og geta einungis valið kvalræði.
Rtá.