Hvaladráp skaðar þjóðarhag en Svandís lætur sem ekkert sé

Þrátt fyrir andstöðu þorra landsmanna eru hvalveiðar hafnar að nýju við Ísland. Fjölmiðlar birta ljótar og blóðugar myndir úr hvalstöðinni í Hvalfirði þar sem stórhveli eru verkuð utan dyra þó að slíkt sé ólöglegt. Það er brot á öllum reglum um meðferð matvæla að verka þau undir berum himni. Matvælastofnun hefur heimild til að stöðva slíkan sóðaskap en gerir það ekki í tilviki Hvals hf. sem viðist geta hagað sér eftir duttlungum forstjórans, hins umdeilda og illa þokkaða Kristjáns Loftssonar. Óskiljanlegt er að ekki sé tekið í taumana.

Með því að verka hvali á plani hvalstöðvarinnar og utan dyra er aðgangur meindýra að þessum matvælum auðveldur. Heilbrigðisyfirvöld ættu ekki að heimila vinnubrögð af þessu tagi þar sem rottur, mýs og önnur meindýr eiga greiðan aðgang og fuglar eins og mávar fljúga yfir og drita yfir þennan blóðuga vettvang.

Þetta fyrirkomulag gerir það einnig að verkum að fólk á auðvelt með að fylgjast með aðförunum úr brekku fyrir ofanhvalstöðina. Erlendir sem innlendir ferðamann geta fylgst með, taka myndir og kvikmyndir af sóðaskapnum og senda út um allt land og allan heim. Erlendir fjölmiðlar á borð við CNN hafa fjallað um þetta og ekki vandað Íslendingum kveðjur. Ljóst er að þetta ástand skaðar hagsmuni Íslands. Hvalveiðar munu draga úr ferðamannastraumi til landsins og hin aðalútflutningsgrein landsmanna, sjávarútvegurinn, verður fyrir ímyndartjóni á erlendum vettvangi.

Svandís Svavarsdóttir, ráðherra Vinstri grænna, fer með endanlegt vald í þessum efnum. Hún titlar sig „matvælaráðherra“og gæti látið stöðva starfsemi Hvals hf. vegna þess að ekki er farið eftir reglum um vinnslu matvæla innan húss en látið viðgangast að hvalaafurðirnar séu unnar til manneldis óvarðar undir berum himni. Svandís gerir hins vegar ekki neitt annað en segja að ekki sé ljóst að það henti hagsmunum Íslands að veiða og verka hval. Hún ætli að skoða málið á næstu árum.

Vinstri grænir hafa mótað stefnu um að leyfa ekki hvalveiðar. Sú stefna var samþykkt á landsfundi flokksins – reyndar áður en VG komst í ríkisstjórn. Engin samþykkt hefur hins vegar verið gerð til að hverfa frá þeirri stefnu. Vinstri græn gefa sig út fyrir að vera náttúruverndarflokkur og sinna dýravernd. Svo þegar þau komast til valda skiptir það engu máli. Svandís ætlar bara að meta stöðuna varðandi hvalveiðar í rólegheitum á næstu árum, væntanlega út líftíma þessarar ríkisstjórnar.

Verndarsinnar vönduðu Kristjáni Þór Júlíussyni, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, ekki kveðjur og töldu hann vera handbendi hvaladrápara. Menn áttu von á heiðarlegri dýraverndun þegar Vinstri græn fengju völdin í sjávarútvegsráðuneytinu. En svo er ekki.

Svandís Svavarsdóttir kemur því miður fram í þessu máli sem ómerkilegur loddari. Það er vont fyrir dýravernd á Íslandi. Og það á eftir að reynast vont fyrir Svandísi sjálfa.

- Ólafur Arnarson.

–––––––––––––––––––––––––––

Mynd/HARD TO PORT-Arne Feuerhahn