Fjölmiðlar fjalla nú um að Siðanefnd Alþingis hafi enn ekki verið kölluð saman vegna stóra bílamálsins hans Ásmundar.
Viðmælandi okkar velti því fyrir sér hverjir væru þess umkomnir að sitja á svo háum palli sem “siðanefnd” hlýtur að teljast. Það eru einhverjir úr hópi þingmanna sem vonandi eru ekki gerspilltir sjálfir vegna fjármálaumsvifa, leyndarhyggju eða vegna siðlausra og vafasamra gjörninga innan þings eða utan. Okkur kom saman um að unnt væri að setja saman “siðanefnd” hinna siðlausustu í þinginu sem væri skipuð yfirburðamönnum á sínu sviði. Lítum á umhugsunarverða tillögu hans:
Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis. Hann stóð fyrir siðlausasta plotti seinni áratuga í íslenskri pólitík þegar hann fékk því framgengt að Geir Haarde var einn dreginn fyrir Landsdóm. Auk þess gaf hann hrægammasjóðum íslensku bankana. Það var fjármálasukk aldarinnar.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kom að fyrirtækjum kringum hrunið sem afskrifuðu 130 milljarða króna á þáverandi verðlagi. Á núverandi verðlagi nema þessar afskriftir nærri 250 milljörðum króna. Þeir sem töpuðu mestu voru lífeyrissjóðir landsmanna. Þrátt fyrir spillinguna velur stærsti flokkur landsins hann til að gegna formennsku og embætti fjármálaráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hann hrökklaðist úr embætti forsætisráðherra þegar ljóst var að hann geymdi auðævi fjölskyldunnar í ólöglegum skattaskjólum á Tortóla og sagði opinberlega ósatt. Hann er einstakur siðapostuli.
Svandís Svavarsdóttir sem hlotið hefur dóma bæði í undirrétti og Hæstarétti fyrir valdníðslu gagnvart sveitarfélagi og landeigendum við Þjórsá þegar hún var umhverfisráðherra. Henni þótti ekki ástæða til að víkja sem ráðherra og flokki hennar þykir í lagi að dubba hana upp að nýju sem ráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra sem hefur hlotið dóm í Hæstarétti fyrir afglöp við skipan dómara í Landsrétt. Henni þykir ástæðulaust að víkja enda er hún sjálf “sérfræðingur” að eigin sögn og er bara ekki sammála niðurstöðu Hæstaréttar. Gott fordæmi fyrir aðra lögbrjóta sem geta þá sagt: Ég er ekki sammála Hæstarétti og því mun ég ekki borga þessar sektir og ekki fara inn. Eftir höfðinu dansa limirnir!
Óli Björn Kárason þingmaður skuldaði í hruninu 478 milljónir króna sem einhverjir töpuðu og hann borgaði ekki. Á núverandi verðlagi er hér um að ræða 800 milljónir króna. Þessi maður situr nú sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins og talar manna mest um að aðrir verði að haga sér vel og það þurfi að hugsa vel um fjármuni almennings. Hverjir töpuðu þessum 800 milljónum sem Óli Björn klúðraði og borgaði ekki. Var það ekki almenningur með beinum eða óbeinum hætti?
Já, það er af nægum “frambærilegum” fulltrúum að taka þegar þingið þarf að velja siðanefnd hinna siðlausu.
Mun siðanefnd hinna siðlausu ekki velja að kasta Ásmundi á bálið til að beina athyglinni frá sér og sínum?
Í Íslandsklukku Laxness var Jón Hreggviðsson dæmdur fyrir að stela snæri. Fyrir það lenti hann í þrælakistunni á Bessastöðum.
Verður Ásmundi ekki fórnað? Munu hinir siðlausu ekki dæma hann til útlegaðar?
Er Ási ekki Jón Hreggviðsson okkar tíma?
Rtá.