Marta Guðjónsdóttir var kjörin borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn nú í vor í fyrsta skipti. Hún var búin að reyna að ná kjöri sem borgarfulltrúi í nærfellt 20 ár en án árangurs. Hún var lengi kjörin varaborgarfulltrúi. Í prófkjörum var eftirspurn eftir kröftum Mörtu ekki næg til að hún næði sæti nógu ofarlega á lista til að vera kjörin borgarfulltrúi.
Í lok síðasta kjörtímabils var hún þó orðin borgarfulltrúi. En hvað þurfti að ganga á til að hún kæmist loks alla leið? Í prófkjöri vegna kosninganna 2014 náði Marta 7. sæti sem var hennar langbesti árangur. En Sjálfstæðisflokkurinn fékk bara 4 menn kjörna í borgarstjórn af 15 eins og þá var. Fylgi flokksins þá var einungis 25.7% sem var það lélegasta frá upphafi. Sl. vor fékk flokkurinn 30.8% sem er það næstlélegasta frá upphafi. Eyþór Arnalds leit á það sem „sigur“. Það er enn eitt dæmið um dómgreindarleysi hans. En hvernig tókst Mörtu loks að verða borgarfulltrúi? Þorbjörg Vigfúsdóttir sem hlaut 5. sæti í prófkjörinu mat stöðu sína réttilega þannig að henni hefði algjörlega verið hafnað og afþakkaði sæti sitt. Við það færðist Marta upp í 6. sætið og varð annar varaborgarfulltrúi flokksins eftir að flokkurinn „landaði“ 4 sætum.
Vorið 2016 komu fram upplýsingar um Panamaskjölin og Tortólasvindlið sem teygði sig inn í ríkisstjórnarflokkana. Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra, nafn Bjarna Benediktssonar kom fram í Panamaskjölum en hann sagði ekki af sér. Hins vegar sagði Júlíus Vífill Ingvarsson af sér í borgarstjórn Reykjavíkur eftir að uppvíst var að nafn hans birtist í umræddum skjölum. Hann hefur nú verið ákærður fyrir peningaþvætti, ennþá sá eini þeirra stjórnmálamanna sem komu við sögu. Júlíus Vífill var í öðru sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2014. Þegar hann sagði af sér færðist Marta upp í 5. sætið og varð fyrsti varafulltrúi flokksins. Hildur Sverrisdóttir var þá borgarfulltrúi en hún var einnig varaþingmaður Reykjavíkur.
Fráfall þeirrar virtu stjórnmálakonu, Ólafar Nordal, leiddi til þess að Hildur Sverrisdóttir tók sæti hennar á Alþingi og sagði jafnframt af sér sem borgarfulltrúi í Reykjavík. Og þá loks komst Marta Guðjónsdóttir inn sem aðalborgarfulltrúi! Það þurfti mikið að ganga á til að hún kæmist í mark eftir nær tveggja áratuga puð.
Hvernig byrjar svo ferill Mörtu sem kjörinn borgarfulltrúi? Hennar er ekki minnst fyrir nein málefni, ekki fyrir að brydda upp á neinum hugmyndum, ekki fyrir að leggja neinum góðum málum lið, ekki fyrir að taka þátt í að leysa neinn vanda. Hennar er minnst fyrir að hafa farið í heilaga fýlu út í borgarfulltrúa úr meirihlutanum sem hafði nægan húmor til að gera létt grín að kjánaskap Mörtu með því hreinlega að ULLA á hana. Framkoma Mörtu er með þeim hætti að ekki er hægt að ætlast til þess að borin sé virðing fyrir henni. Þá uppsker hún eins og hún hefur sáð. Málflutningur hennar er steinrunninn og úreltur. Það verður að sýna því skilning að pólitískir andstæðingar nenni ekki að eiga orðastað við hana og ULLI bara. Það er alveg skiljanlegt.
Marta má þakka fyrir að enginn hefur ennþá MÚNAÐ á hana! En hver veit hvað gerist næst?
Eyþór Arnalds, Marta Guðjónsdóttir, Vigdís Hauksdóttir og aðrir húmorlausir borgarfulltrúar minnihlutans verða að fara að gera sér grein fyrir því að þau náðu ekki völdum í Reykjavík. Þau urðu undir. Þau skipa valdalausan minnihluta til næstu fjögurra ára. Það er þeirra hlutskipti og annað býðst þeim ekki.
Vonandi sér minnihlutinn að sér og hlífir borgarbúum og landsmönnum öllum við fýlu-og svekkelsisköstum sínum. Eru ekki til einhver lyf við þeirra vanda? Eru ekki einhver úrræði tiltæk? Landsmenn eiga alla vega heimtingu á að vera lausir við þetta væl.
Rtá.