Hvað verður um sjóði vr?

VR hét einu sinni verzlunarmannafélag Reykjavíkur. Svo var nafninu breytt í skammstöfunina VR og um tíma reynt að láta nafnið „Virðing réttlæti“ festast við það, sem þó tókst ekki. Þetta er gamalgróið félag og stórt, stærsta launþegafélag landsins með 33 þúsund félagsmenn.

 

Eftir hrun hafa orðið mikil mannaskipti í stjórn félagsins og tíð formannaskipti. Núverandi formaður, Ragnar Þór Ingólfsson, er sá fjórði frá hruni 2008. Hann ætlar að láta mikið að sér kveða og fer mikinn með digurbarkalegum yfirlýsingum og freistar þess nú að sveigja félagið inn á nýjar brautir. Hann fékk stjórnina til þess um daginn (20. febrúar) að stofna fasteignafélag.

Hann ætlar að láta félagið byggja 40 íbúðir sem hann vill leigja út á lægra verði en gengur og gerist á markaðnum. Í frétt á vef félagsins segir um félagið (orðalagið minnir óneitanlega á orðfæri formannsins): „Öfugt við almenn leigufélög mun leigufélag VR snúast fyrst og fremst um það hvernig hægt sé að hafa leiguna sem lægsta en ekki sem mesta arðsemi.“

 

Hvorki formaðurinn né aðrir í forystu VR hafa andað upp orði um það, hvernig fara skuli að því að hafa verðið lægra. Kannski er það ekki ætlunin? Formaðurinn gerði nefnilega lítið úr áformum Bjargs íbúðafélags litlu fyrr með því að minna á að Bjarg ætlaði að byggja bara pínulitlar íbúðir fyrir fátæklinga, en VR félagar væru svo vel settir að þeir þyrftu ekki slíkar aumingja ölmusur enda meðallaun þeirra um 600 þúsund krónur.

   

Það eru kannski þessi góðu laun sem valda því að VR hefur safnað upp digrum sjóðum í gegnum tíðina. Ekki er gott að fá upplýsingar um sjóðina, en að líkindum eru þeir eitthvað vel á annan tug milljarða króna. Semsagt vel yfir tíuþúsund milljónir króna.

 

Þessir sjóðir eiga að vera einhvers konar áfallatryggingar fyrir félagsmenn, til dæmis ef þeir skyldu nú lenda í verkvföllum eða veikindum eða einhverju þaðan af verra. Þá er nú betra að eiga góða og trausta sjóði.

 

En – hvar eru þessir sjóðir? Og hver er afkoma þeirra? Bera þeir einhvern ávöxt? Þegar flett er ársskýrslum og reikningum félagsins er nánast engar upplýsingar að finna. Allt hulið leyndarhjúp – á sama tíma og formaðurinn krefst gagnsæis af öllum öðrum!

 

En, þrátt fyrir þessa leynd alla um sjóði félagsins vita félagsmenn mæta vel af þeim. Á launaseðlunum kemur nefnilega fram að þeir eru krafðir um býsna háar greiðslur hvern mánuð. Ekki aðeins í félagsgjald heldur líka í sjúkrasjóð, orlofsheimilasjóð og starfsmenntasjóð. Nærri lætur að dæmigerður félagsmaður VR greiði 12-15 þúsund krónur á mánuði í allt þetta sjóðasafn félagsins.

 

Hver veit hvar þessir sjóðir eru? Þegar ársreikningur VR er skoðaður (nú er sá nýjasti fyrir árið 2016) sjást ekki merki um þá. Í efnahagsreikningi eru taldar eignir, þar eru verðbréf og verðbréfasjóðir rétt tæpir tíu milljarðar í árslok 2016. Ekki orð um afkomu eða rekstrarkostnað sjóðanna.

 

Sundurliðunin er annars vegar Vinnudeilusjóður upp á þrjá milljarða (sem gera tæplega hundraðþúsund á hvern félagsmann ef til verkfalls kemur) og svo óráðstafað eigið fé upp á tæplega átta milljarða.

 

Þegar formaðurinn kynnti áform sín um að láta VR byggja 40 íbúðir til að leigja út á lágu verði láðist honum alveg að gera grein fyrir því hvernig ætti að fara að því að hafa íbúðirnar svo ódýrar. Auðvitað tekur fólk eftir því og sannast sagna foru að renna tvær grímur á marga almenna félagsmenn í VR.

 

Ætlar formaðurinn að seilast í sjóði félagsmanna VR til að borga þetta gæluverkefni sitt? Er ekki nóg til í svona feitum sjóðum og enginn sér til þeirra hvort sem er? Munar nokkuð um að niðurgreiða 40 íbúðir?

 

Hinir almennu félagsmenn VR sem fæstir kusu Ragnar Þór til formennsku (hann hlaut atkvæði 10% félagsmanna) eru nú uggandi um framtíð félagsins og þeirra sjóða sem þeir hafa meira og minna nauðugir byggt þar upp. Kannski rifjast þá upp fyrir þeim að í landinu er félagafrelsi og enginn bundinn að því að vera í félagi eins og VR, hægt er að ganga úr félaginu og jafnvel stofna nýtt. Annað eins hefur víst gerst.

   

Rtá