Yfirlýsingar Lilju Alfreðsdóttur ráðherra hafa valdið óróa innan ríkisstjórnarinnar. Þolinmæði sjálfstæðismanna og ráðherra Vinstri grænna gagnvart henni er sögð vera á þrotum. Einkum hafa Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir verði ósátt með framgöngu hennar í ýmsum málum og óvíst er talið að þau muni láta kyrrt liggja mikið lengur.
Steininn mun hafa tekið úr þegar Lilja lýsti því yfir að réttast væri að hækka bankaskatt vegna þess að afkoma stóru bankanna hafi verið góð. Þá er ljóst að þessir þrír bankar munu greiða tugi milljarða í arð sem rennur að tveimur þriðju hlutum beint í ríkissjóð vegna eignarhalds ríkisins á tveimur bankanna. Lilja er viðskiptaráðherra og í ljósi þess þykja þessar yfirlýsingar hennar enn vandræðalegri en ella.
Strax og Lilja sló þessu fram sagði Bjarni Benediktsson að ekki kæmi til greina að hækka bankaskattinn. Öllum ráðherrum hlýtur að vera ljóst að hækkun bankaskatts er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar. Um það var samið við myndun ríkisstjórnarinnar og þess vegna eru upphrópanir Lilju ekkert annað loddaraháttur og ómerkileg sýndarmennska.
Öllum er ljóst að nú styttist í sveitarstjórnarkosningar og þess vegna vekja innstæðulausar yfirlýsingar af þessu tagi meiri athygli en ella. Og falla öðrum ráðherrum enn verr í geð. Lilja hefur einnig verið yfirlýsingaglöð um fleira en bankaskattinn. Hún hefur verið með yfirlýsingar um að taka ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði fyrr en seinna og vísað til fordæma frá Danmörku. Fjömiðlafólk trúir orðum hennar um þetta rétt mátulega. Bent er á að hún hafi talað um þetta allt liðið kjörtímabil án þess að standa við stóru orðin. Hví ætti að vera eitthvað meira að marka hana nú en þá?
Þá hafa yfirlýsingar hennar um byggingu íþróttahallar og knattspyrnuvallar þótt heldur stórkarlalegar og algerlega órökstuddar í ljósi þess að ríkið hefur ekki tekið frá krónu í fimm ára fjárhagsáætlun til þessara framkvæmda. Hér um um að ræða fjárfestingar upp á marga tugi milljarða og því vissara að ráðherrar hafi fast land undir fótum fjárhagslega þegar fjallað er um þessi mál. Annars blasir við að einungis sé verið að reyna að búa til jákvætt andrúmsloft fyrir Framsóknarflokkinn í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna í maí á þessu ári.
Víst er að yfirlýsingum frá Lilju verður tekið með mikilli tortryggni úr þessu. Alla vega fram yfir kosningar. Þá má einnig ætla að samstarfsflokkar Framsóknar í ríkisstjórninni muni ekki sætta sig við frekari vanhugsaðan einleik hennar. Slíktgæti haft afleiðingar í för með sér varðandi stjórnarsamstarfið.
- Ólafur Arnarson.