Sjónvarpskonan Sirrý á Hringbraut spyr í nýjum pistli sínum á vef stöðvarinnar, hringbraut.is hvað hafi orðið um alla auðmýktina, hófsemdina og nægjusemina sem allir tölu að yrðu gildi Íslendinga eftir hrun.
Hún skrifar: \"Í heitu pottunum 2007 var um fátt annað rætt en menn sem vissu ekki aura sinna tal, borðuðu gull í veislum og skitu peningum. Nú er vart um annað talað en útlendinga sem skíta á náttúruperlur Íslands og um Íslendinga sem mega ekki sjá holu eða auðan blett í bakgarði án þess að byggja þar hótelturn.\"
Og hún spyr eðlilega: \"Vantaði ekki bæði þá og nú ákveðna auðmýkt? Orðin sem margir virðast ekki þekkja eru hófsemd og nægjusemi. Mikið var rætt um gildi á þjóðfundum eftir bankahrunið. Hófsemd, nægjusemi og auðmýkt voru orð sem við bjuggumst mörg við að yrðu ríkur partur af framtíðinni. En nei, það fór nú aldeilis ekki þannig.\"
Niðurstaða sjónvarpskonunnar er skýr: \"Þeir sem fylla rútur af fólki, aka þeim þangað sem ekkert salerni er að finna og hleypa svo fólki í spreng út í garð hjá bændum og skáldum þurfa að skoða betur sín gildi, fara sér hægar og vanda sig. Þeir sem pirra sig á merkum fornleifarannsóknum og fornleifafundum, því það hægir á hótelbyggingum, þurfa að rifja upp gildi þjóðfundarins.\"
Og nákvæmlega þetta: \"Látum ekki þessa gráðugu fella okkur aftur.\"