Það eru mikil tíðindi af breskum stjórnmálum. Í höfn er stærsti kosningasigur Íhaldsflokksins í 32 ár eða allt frá sigri Margrétar Thatcher árið 1987. Á hinn bóginn er ósigur Verkamannaflokksins sá versti frá árinu 1935.
Lokið er þeirri pólitísku lömun sem hrjáð hefur Breta í þrjú ár. Líklegt er að landið muni hafa stöðugri ríkisstjórn með starfandi meirihluta. En í miðjum fagnaðarópum gætu Íhaldsmenn setið uppi með það að hafa tryggt Brexit en tapað einingu Stóra-Bretlands.
Niðurstaðan fyrir Jeremy Corbyn sem stýrt hefur Verkamannaflokknum frá árinu 2015 er flestum skýr nema honum. Þetta er versti árangur flokksins í 84 ár. Bretar hafna þeim harða sósíalisma sem boðaður var. Þeir sáu ekki í Corbyn leiðtoga landsins. Í neysluhyggju jólaundirbúnings hljómuðu gamaldags hugmyndir um þjóðnýtingu eins og söguskýringar frá Sovétríkjunum.
Kosningarnar snerust um Brexit. Dugleysi Verkamannaflokksins um skýra stefnu var algjört. Reynt var að höfða til allra óháð afstöðu til Brexit.
Skoski þjóðarflokkurinn, með kröfur um áframhaldandi aðild að ESB og sjálfstæði Skotlands, er líka sigurvegari. Þar vegur líka þungt að síðasti Brexit-samningur Johnsons gaf Norður-Írum mikla sérstöðu en ekki Skotum. Krafa um nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um skoskt sjálfstæði er því í kortunum á næsta ári.
Eftir 46 ára aðild eru Bretar á leið úr ESB, til góðs eða ills. Það verður ekki auðvelt því landið er samtvinnað öðrum á innri markaði Evrópu. Brottförin úr innri markaði Evrópu er 31. janúar. Þá tekur við aðlögunartímabil til loka 2020. Á þeim 11 mánuðum verða erfiðar viðræður um fríverslunarsamning um tollfrjálsan og kvótalausan aðgang vöru og markaðsaðgang þjónustu í anda viðskiptasamnings ESB við Kanada og Japan.
Viðræður ættu að geta hafist í mars. Leiðtogafundur ESB og Bretlands vegna viðræðnanna er fyrirhugaður í júní. Fram til júlí geta Bretar óskað eftir framlengingu á aðlögunartímabili sem er í dag til ársloka 2020 en getur orðið allt til ársloka 2022.
Fram undan eru erfiðir samningar. Í fyrsta lagi verður þrýstingur á setningu sameiginlegra leikreglna sem Bretar vilja sem minnst af. Á sama tíma vill ESB hertar umhverfisreglur sem kallar á aukinn kostnað. Þá er krafa uppi um kerfi til að leysa úr þeim ágreiningsmálum sem kunna að koma upp.
Í öðru lagi verður tekist á um framtíðaraðgang Breta að fjármálamörkuðum Evrópu. Þeir missa nú rétt til að bjóða þjónustu á meginlandinu.
Í þriðja lagi eru úrlausnarefni varðandi fiskveiðar og aðgang að hafsvæðum Breta. Í Brexit var mikið rætt um fullveldi yfir eigin landhelgi. Samningur um gagnkvæmar veiðiheimildir og aðgang að mörkuðum sjávarafurða, en gerð hans á að ljúka 1. júlí 2020, er ekki hluti af fyrirhuguðum fríverslunarsamningi.
Þrátt fyrir sífellt fleiri sameiginleg viðfangsefni Evrópuþjóða á borð við loftslagsbreytingar, vaxandi áhrif Asíuþjóða og þjóðaröryggismál hafa Bretar kosið tvíhliða samninga í stað fjölþjóðasamvinnu innri markaðar Evrópu. Átakaumræða um þessa tvo valkosti er rétt að byrja.
Höfundur er ritstjóri Fréttablaðsins.