Hvað kostar garður?

Hverjum dreymir ekki um draumagarðinn og oftar enn ekki er þetta árstíminn sem margir láta sig dreyma um garð og láta hanna hann. En áður en út í garðhönnun er farið er mikilvægt að gera sér grein fyrir kostnaðinum. Það er algengt að garðeigendur gera sér ekki fullkomlega grein fyrir því hvað slíkt kostar. Björn Jóhannsson landslagsarkitekt hjá Urban Beat er með þetta á hreinu og hefur ritað mjög gott blogg á síðu sinni um hvað garður kostar og hvað kostar að teikna hann. Björn gefur lesendum góðar hugmyndir um verð og útfærslur enda geta draumagarðar verið sannkallað augnakonfekt fyrir sérhvern garðeiganda.

Hér má sjá bloggið hans um kostnaðinn sem fylgir því að hanna og eignast draumagarðinn.  Einnig er hægt að skoða eftirfarandi blogg á heimasíðunni:  https://www.urbanbeat.is/blogg/hva%C3%B0-kostar-gar%C3%B0ur?fbclid=IwAR31a9tqb6vZ6sb9LG04XsXMF8TzccA9YowqwOh2h6nHfcrBBYUys1rrs-E

Bloggið hans Björns:

Hvað kostar garður og hvað kostar að teikna hann? Þetta eru gjarnan fyrstu spurningar húseiganda þegar draumar um fallegan garð byrja að kvikna. Sumir hafa þetta sem sitt fyrsta verkefni þegar flutt er í nýtt hús en flestir áætla sér nokkur ár í verkefnið. Þegar þetta er unnið eitt skref í einu verður sársaukinn kannski minni en það er þó gott að gera sér grein fyrir heildarkostnaðinum í upphafi. Áður en teikning og verkáætlun hafa verið gerðar eru margir óvissuþættir, en þar sem flestir verkþættir eru þekktar stærðir má auðveldlega gera sér grein fyrir kostnaði um leið og magn og umfang liggur fyrir. Hellulagnir, pallasmíði og graslagning eru verk sem verktakar vinna í hverju verkefni á fætur öðru og því ekki erfitt að áætla einingaverð og þar með heildarverð. Verðin sem birtast hér að neðan eru fengin eftir nokkur símtöl við vandaða verktaka og endurspegla þau verð sem voru í gangi vorið og sumarið 2018. Verð geta þó rokkað um allt að 30% eftir árstíðum og eru einnig fljót að hækka ef valin eru dýrari efni eða búnaður. Það hefur reynst hagkvæmt að semja við verktaka með um hálfsársfyrirvara og ég hef oft sagt að það sé gott að vera í bandi í febrúar þegar jólavísareikningurinn er að detta inn á heimabankann.

Aðstæður misjafnar

Þó einingaverðin hér að neðan eigi oftast vel við geta aðstæður á staðnum orðið til þess að verkefnið verður dýrara. Það eru ýmsir óvissuþættir sem geta spila inn í, sérstaklega þegar um er að ræða gróinn garð í gömlu hverfi eða garð sem er í fjarlægð frá venjulegu vinnusvæði verktakans. Það getur verið miserfitt að koma vélum inn í garðinn, svo er stundum óvissa um hvað sé undir yfirborðinu og þá hversu mikinn jarðveg þurfi að skipta um. Í þessum pistli verður skoðaður kostnaður fyrir hefðbundinn nýjan garð með litlum landhalla og ekki tekið tillit til flókinna aðstæðna. 

Stærstu liðirnir eru verandir og innkeyrslur

Það sem telur yfirleitt mest þegar verið er að útbúa garð eru stærðir yfirborðs. Þá skiptir máli hvort innkeyrslan sé fimmtíu fermetrar eða hundrað og hvort pallurinn nái yfir hluta baklóðar eða hana alla. Síðan koma skjólveggir og stoðveggir en hver lengdarmeter telur. Heiti potturinn er oftast ómissandi og svo hefur færst í aukanna að útbúin sé geymsla, gufubað eða útieldhús í garðinum. Það er líka mjög auðvelt að missa sig í lýsingunni enda er hún gjarnan það sem setur einn mestan svip á garðinn.

Hér á eftir fer listi yfir algengar framkvæmdir í görðum og algeng einingaverð. Öll verð gera ráð fyrir efni, vinnu og öllum sköttum og gjöldum:

  • Hellulögn (með sögun og kantstuðningi) kr. 18.000 - 20.000 p/m2
  • Snjóbræðsla undir hellulögn (með tengingu en ekki grindarbúnaði) kr. 4.000 - 6.000 p/m2
  • Jarðvegsskipti undir bílaplan (drulla út og grús inn) 4.000 – 7.000 p/m2
  • Trépallur (klæddur furuborðum) kr. 19.000 – 23.000 p/m2
  • Trépallur (klæddur lerkiborðum) kr. 25.000 – 30.000 p/m2
  • Trépallur (klæddur harðviði) kr. 35.000 – 50.000 p/m2
  • Skjólveggur klæddur furu beggja vegna (hæð 1,8 m) kr. 28.000 – 32.000 p/lm
  • Skjólveggur klæddur lerki beggja vegna (hæð 1,8 m) kr. 35.000 – 40.000 p/lm
  • Skjólveggur klæddur harðviði beggja vegna (hæð 1,8 m) kr. 50.000 – 60.000 p/lm
  • Steyptir veggir, frístandandi kr. 45.000 – 60.000 p/m2
  • Veggir úr náttúrugrjóti (td. grágrýti) kr. 90.000 – 120.000 p/m2
  • Steyptir veggir, stoðveggir (allt að 2 m hæð) kr. 60.000 p/m2
  • Stoðveggur úr sprengdu grjóti eða hrauni kr. 25.000 – 35.000 p/m2
  • Hlaðinn stoðveggur 35.000 – 50.000 p/m2
  • Moldarbeð með góðri mold og þakið runnum kr. 15.000 – 25.000 p/m2
  • Grasþökur (með undirvinnu) kr. 3.000 – 4.000 p/m2
  • Heitur pottur með frágangi og tengingum kr. 1.000.000 – 1.500.000
  • Smáhýsi 10 m2 (óeinangrað) kr. 400.000 – 1.000.000
  • Smáhýsi með gufubaði, einangrað með vængjahurðum 15 m2 kr. 2.500.000 – 3.000.000

Nokkur verðdæmi: 

Einfaldur raðhúsagarður

Í þessu verðdæmi erum við með 450 m2 raðhúsagarð með húsi sem er um 100 m2 að grunnfleti. Þetta er einfaldur raðhúsagarður með flestu sem til þarf en hér er kostnaði haldið niðri með hagkvæmum efnum og hóflegum svæðum. Þó er gert ráð fyrir að öll vinna sé aðkeypt og jarðvegsvinna sé hófleg.

  • Innkeyrsla 60 m2 – kr. 1.200.000
  • Trépallur 50 m2 – kr. 1.000.000
  • Stígar um garðinn 10 m2 – kr. 200.000
  • Runnabeð 70 m2 – kr. 1.200.000
  • Gras 120 m2 – kr. 400.000
  • Skjólgirðing 10 m – kr. 300.000
  • Heitur pottur og frágangur – kr. 1.000.000
  • Geymsluskápar á girðingar 5 m2 – kr. 200.000
  • Fastir bekkir 10 m – kr. 200.000
  • Lýsing 10 ljós – kr. 500.000
  • Hugmyndateikning af garðinum kr. 300.000

Raðhúsagarður gæti því kostað 6.500.000 m vsk

Lítill einbýlishúsagarður

Í þessu dæmi erum við með 700 m2 garð með húsi sem er um 150 m2 að grunnfleti. Þetta er hefðbundin „lítil“ einbýlishúsalóð. Efni eru í hagkvæmari kantinum en þó er gert ráð fyrir lerki á pallinn og smá nuddbúnaði í heita pottinn. Auðvitað má ná kostnaði niður ef húseigendur vinna einhvern hluta sjálfir og einnig ef farin er hóflegri leið í stærð yfirborða. Helmingi minni pallur myndi t.d. lækka verðið um milljón.

  • Innkeyrsla 100 m2 – kr. 2.000.000
  • Trépallur með lerki 80 m2 – kr. 2.000.000
  • Stígar um garðinn 30 m2 – kr. 600.000
  • Runnabeð 120 m2 – kr. 2.400.000
  • Gras 200 m2 – kr. 700.000
  • Skjólgirðing 30 m – kr. 900.000
  • Heitur pottur og frágangur – kr. 1.500.000
  • Einangrað geymsluhús eða gróðurhús allt að 15 m2 – kr. 1.500.000
  • Fastir bekkir 10 m – kr. 200.000
  • Lýsing 20 ljós – kr. 1.000.000
  • Heildarteikning af garðinum – kr. 1.000.000

Heildarkostnaður við 700 m2 lóð m vsk gæti því verið um 13,8 milljónir

Einbýlishúsalóð með öllu

Í þessu dæmi erum við með 1100 m2 lóð með húsi (á tveimur hæðum) með 200 m2 grunnfleti og einhverjum halla innan lóðar. Í þessari lóð er vandað til verks. Garðurinn er útfærður með vönduðum efnum eins og grágrýti, harðviði og steyptum veggjum. Innkeyrsla og pallur eru stór og myndarleg og gert er ráð fyrir bæði flottu gufubaði og útieldhúsi.

  • Innkeyrsla og aðrar hellulagnir 250 m2 – kr. 5.000.000
  • Trépallur úr harðviði 150 m2 – kr. 7.500.000
  • Runnabeð 300 m2 – kr. 4.500.000
  • Gras 200 m2 – kr. 800.000
  • Frístandandi veggur úr grágrýti 20 m2 – kr. 2.000.000
  • Steyptir stoðveggir 70 m2 – kr. 4.200.000
  • Heitur pottur og frágangur – kr. 2.000.000
  • Geymsluhús 15 m2 – kr. 500.000
  • Gufubaðshús 15 m2 – kr. 3.000.000
  • Útieldhús – kr. 1.500.000
  • Lýsing 50 ljós – kr. 3.000.000
  • Heildarteikning af garðinum – kr. 1.500.000

Kostnaður við þennan garð yrði kr. 35.500.000

Svo má ekki gleyma húsgögnum og grilli

Til þess að klára garðinn þarf svo að koma fyrir garðhúsgögnum, eitthvað af blómapottum og vönduðu grilli. Ekki er úr vegi að taka frá eina til þrjár milljónir fyrir þessu. Þó má auðvitað kaupa þetta í rólegheitunum eftir að garðurinn er tilbúinn eða jafnvel finna notuð húsgögn á Blandinu og gera þau upp.

En eins og kemur fram í byrjun þá eru verð og gæði garðframkvæmda mjög misjöfn. Verðið er yfirleitt hæst á vorin, sérstaklega ef veðrið hefur verið hlýtt og bjart. Eins getur verð breyst með gengi og aðstæðum á byggingamarkaði.

Hægt erð fylgjast með blogginu hans Björns á heimasíðu Urban Beast:  https://www.urbanbeat.is/