VR félagar hljóta nú að fara að spyrja sig: Hvað hefur formaður félagsins gert til að bæta kjör félagsmanna og réttindi þeirra? Nýjasta útspil hans var í morgunútvarpinu hjá RÚV mánudaginn 3. desember. Á vef
ruv.is er sagt svona frá:
\"Alþingismenn fá hátt í tvöfalt hærri desemberuppbót en flestir aðrir, eða um 180 þúsund krónur. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefði viljað sjá þessu öðruvísi farið. „Ég held að ríkið ætti að sjá sóma sinn í því að hætta þessari sjálftöku ef svo má kalla það. Þó að það sé búið að leggja niður kjararáð þá er komin hyldjúp gjá á milli vinnumarkaðarins og Alþingis vegna ákvörðanna (sic!) kjararáðs. Þetta er ekki til að hjálpa stöðunni,“ segir Ragnar Þór.\"
Þetta er alls ekki í fyrsta skipti sem viðbrögð þessa formanns eru á þessa lund við fregnum um launakjör einhverra sem honum finnst að fái of mikið. A.m.k. meira en honum líkar. Hann hefur að vísu aldrei rökstutt það álit sitt nánar. Aðeins fullyrt að um sé að ræða \"sjálftöku,\" \"elítu\" eða eitthvað enn verra, stundum ýjað að þjófnaði.
Nú hneykslast hann á að alþingismenn fái hærri jólabónus en VR félagar. Af hverju sækir hann ekki sjálfur hærri desemberuppbót fyrir félagsmenn sína? Hann bauð sig fram til þess starfs. Hver er kjarabarátta þessa formanns VR? Hver er barátta hans fyrir auknum réttindum félagsmanna? Hingað til hefur hann ekki haft neitt fram að færa annað en að krefjast launalækkunar einhverra sem honum finnst að fái of mikið. Síðan hefur henn komið með einhverjar almennar kröfur til handa öryrkjum og lægst launuðu hópunum, þ.e. í fjölmiðlum. Við höfum ekki enn fengið að sjá neitt til hans í raunverulegri kjarabaráttu. Aðeins glannalegar og stundum stórundarlegar yfirlýsingar í fjölmiðlum.
VR félagar hljóta að vera orðnir nokkuð langleitir yfir tilraunum formannsins til að knýja fram launalækkanir á sama tíma og ekkert verður vart við baráttu hans fyrir bættum kjörum félagsmenna (sem hafa reyndar að meðaltali um 700 þúsund krónur í mánaðarlaun).