Hvað er þetta með magnesíum?
Margt af því fólki sem stundar reglulega útivist, hvort heldur er fjallgöngur, götuhlaup eða hjólreiðar, svo fátt eitt sé talið, tekur magnesíum eftir svo að segja hverja æfingu. Ástæðan er einföld, að sögn Hjalta Björnssonar leiðsögumanns sem á að baki hundruð ferða upp um fjöll og firnindi með alls konar hópa fólks:
Magnesíum dregur úr vöðva- og beinverkjum eftir mikið álag á líkamann. Margir fjallgöngumenn eru Hjalta sammála og finna ótvíræðan mun á skrokknum eftir dagsgönguna eftir því hvort þeir fái sér magnesíum strax að göngu lokinni eða sleppi því. Magnesíum er raunar um margt mikið undraefni. Þetta fjórða algengasta efni líkamans er samþætt úr 300 ensímum sem eiga hlut að orkubúskap líkamans, prótínsamruna og kjarnsýruefnaskipta eins og komist er að orði inn á síðunni doktor.is. Magnesíum er þannig nauðsynlegt til að halda uppi efnaskiptum líkamans svo að starfsemi hjarta og vöðva gangi eðlilega. Magnesíum fæst úr kornmeti, kjöti, grænmeti og hnetum, en er einnig vinsælt í töfluformi fyrir fólk sem hreyfir sig mikið og reglulega. Margir taka eina eða tvær töflur af því fyrir svefninn, enda benda rannsóknir til þess að magnesíum rói líkamann sem er ekki ónýtt fyrir þreyttan skrokk á síðkvöldum.