Ert þú kannski sitjandi heima að lesa fréttir og finnst eins og að heimurinn sé að farast og að allt sé að fara á versta veg vegna COVID-19? Líður þér eins og þú getir ekki gert neitt við vandanum á meðan þú horfir á vandamálið stækka og stækka? Þannig líður mörgum vegna hamfarahlýnunar.
Að horfa á allan heiminn bregðast við veirunni á augnabliki er sönnun þess að leiðtogar heimsins geta í raun og veru gripið til róttækra aðgerða ef viljinn er fyrir hendi. Alþjóðasamstarfið, og viðbragðshraðinn sem okkur var sagt að væri „ómögulegt“ er að gerast og er að virka vel. Heimurinn er í alvörunni að taka sig saman til að vinna gegn sameiginlegu vandamáli. En þar sem hamfarahlýnun er jafn stórt, ef ekki stærra vandamál, hvar eru róttæku aðgerðirnar gegn henni?
Í mörg ár hafa loftslagsaðgerðasinnar verið að kalla eftir aðgerðum strax. Og ár eftir ár hafa aðgerðir heimsins valdið okkur miklum vonbrigðum. Vísindamenn segja að við höfum minna en áratug til þess að algjörlega umbylta hagkerfinu, fjárfesta í endurnýtanlegri orku og breyta matarvenjum okkar. Þrátt fyrir þessa miklu en jafnframt spennandi áskorun hafa leiðtogar heimsins ekki gert nóg og heimurinn því skrefi nær framtíð þar sem veðurhamfarir, súrnun sjávar, fjöldaflótti og stærsta efnahagshrun mannkynssögu verður hluti af daglegu lífi jarðarbúa.
Maður veltir fyrir sér: hvað ef við myndum bregðast við hamfarahlýnun með sama krafti og við bregðumst við COVID-19? Þau viðbrögð myndu líkjast því sem við erum að sjá núna, nema með jákvæðari formerkjum. Fréttaumfjöllun allan sólarhringinn um þróun mála. Við hlustum á sérfræðinga sem halda fréttafundi daglega og engir efasemdarmenn fá að afvegaleiða umræðuna, enda vísindi ekki skoðanamál. Olíuvinnslu er hætt á augnabliki, ríki myndu kalla eftir vopnahléi og styrkja þau samfélög sem mest finna fyrir áhrifum hlýnunar. Þrátt fyrir mikla breytingu á daglegu lífi fólks er meirihlutinn sammála þessum róttækum aðgerðum þar sem þær tryggja framtíð næstu kynslóða. Hins vegar, í stað einangrandi sóttkvíar og samkomubanns, gætu viðbrögð heimsins við hamfarahlýnun orðið til hins betra fyrir almenning. Fjárfestingar í grænum störfum og nýsköpun styrkja hagkerfið, þjóðhátíðardagur þar sem allir planta trjám, og að við fögnum því að lifa jarðvænum og heilbrigðum lífsstíl. Þetta eru meðal þeirra aðgerða sem Ísland gæti gripið til þar sem við erum ekki bara að koma í veg fyrir yfirvofandi heimskrísu, heldur líka að byggja upp betri heim.
Svo, hvað gerum við nú? Nú hefur mengun í heiminum farið niður vegna lokana á stórum verksmiðjum en með áhrifaríkri fjárfestingu í grænni tækni getum við látið hagvöxt rísa, en mengun halda áfram að minnka. Þegar við náum stjórn á COVID-19 getum við ekki haldið áfram lífinu eins og það var áður en þetta byrjaði. Við þurfum að snúa okkur að næstu krísu sem einfaldlega getur ekki beðið lengur. Í samfélaginu heyrum við margar sögur af fólki sem vinnur nú heima og er að njóta þess að draga aðeins úr hraðanum. Ég vona að við lærum af þessu að lífsgæði felast ekki endilega í því að þeysast um allt og kaupa hluti, heldur að njóta augnabliksins. Oft eru það einföldu hlutirnir heima sem gefa okkur mestu lífshamingjuna.