Ný sería af þættinum Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar hefur göngu sína í kvöld eftir sumarfrí. Í tilefni þess heimsækir Sjöfn náttúruperluna Flatey á Breiðafirði og fær að skyggnast inn í eitt húsanna en öll húsin eru í einkaeigu og híbýlin bera nafn og eiga sér sögu. Í dag eru húsin eru notuð sem sumarhús og iðar því eyjan full af mannlífi á sumrin. Þegar byggðin í Flatey stóð í sem mestum blóma um aldamótin 1900 voru íbúarnir um 400 talsins. Lagðist byggðin síðan að mestu af en þorpið er ein heildstæðasta þorpsmynd sem varðveist hefur á Íslandi og þar er eins og tíminn hafi staðið í stað frá upphafi 20.aldar. Eftirsóknarvert þykir að eiga sumarhús í Flatey vegna góðs veðurfars og kyrrsældar.
Herdísarhús (Gunnlaugshús) á sér litríka og mikla sögu og Þorsteinn gefur henni góð skil í þættinum í kvöld. Ljósmyndir/Hringbraut
Að þessu sinni heimsækir Sjöfn Þórðar Þorsteinn Bergsson framkvæmdastjóra Minjaverndar í Herdísarhús sem upphaflega var nefnt Nýjahús, sem er í eigu hans og eiginkonu hans Ingbjörgu Ástu Pétursdóttur og systur hans Valgerðar Bergsdóttur. Húsið var reist við lok fimmta áratugar 19.aldar og var farið að láta á sjá þegar Þorsteinn og fjölskylda hans, systir og mágur keyptu húsið árið 1975. Þar beið þeirra mikið verk og gerðu þau húsið upp með mikill ástríðu og natni og útkoman eftir því. Herdísarhús er staðsett í hringiðu gamla þorpsins í Flatey og útsýnið er einstakt enda eyjan náttúraparadís sem á sér enga líka.
„Húsið þótti í upphafi reisulegast húsa á Vesturlandi og stofa þess bæði stærst og skrautlegust. Sérkenni í skreyti innanhúss, einkum loftflekar í stofu og samsetning þeirra geta bent til þess að þeir hafi fylgt húsinu,“segir Þorsteinn og bætti því að við endurgerð hússins hafi verið haldið í sérkenni hússins.
Kirkjan út í Flatey stendur á tignarleg á hæð ásamt Bókhlöðunni og setja svip sinn á eyjuna.
Flateyjarkirkja núverandi er einkum táknræn fyrir íbúa eyjunnar og er hún skreytt loftmyndum eftir Baltasar Samper og Kristjönu konu hans. Þorsteinn fylgir okkur einnig í kirkjuna og fer yfir myndefnið, söguna, sem þar er að finna sögu um eyjabúskapinn og mannlífið. Saga Flateyjar er ómetanlegur menningararfur og sagan sem fylgir híbýlum eyjarinnar einstök sem lætur engan ósnortinn.
Meira um söguna bak við Herdísarhús og listaverk kirkjunnar í Flatey í þættinum Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar í kvöld á Hringbraut klukkan 19.00 beint eftir Fréttavaktinni og aftur klukkan 21.00.
Þorpið í Flatey er ein heildstæðasta þorpsmynd sem varðveist hefur á Íslandi og þar er eins og tíminn hafi staðið í stað frá upphafi 20.aldar.
Þorsteinn Bergsson einn eigenda Herdísarhúss er einnig framkvæmdastjóri Minjaverndar og nýtur sín hvergi betur en út í Flatey. Hann segir að fuglalífið, kyrrðin, sjórinn, tímaleysið og mannfólkið sé heillandi fyrir hjarta og sál.