Rafmagn er farið af Vík vegna óveðursins. Vindhraði er þó minni en ætlað var á þesum tíma en samkvæmt kvöldfréttum Sjónvarpsins er lægðin ekki eins stundvís og ætlað var. Það er ekki talið breyta því að brjálað veður verði á næstunni.
Verið er að keyra upp díselstöð til að koma rafmagni aftur á þorpið í Vík.
Glórulaust veður er nú í Vestmannaeyjum og er verið að rýma hús þar sem þök eru að losna. 40 metra vindhraði er á sekúndu í Eyjum núna og virðist sem full þörf hafi verið á að lýsa yfir hættustigi á Suðurlandi. Hvellurinn færir sig svo um allt land í kvöld og í nótt.
Samkvæmt mbl.is splundraðist rúða í húsi í Eyjum vegna vindofsans og leikur húsið á reiðiskjálfi.
Samkvæmt visir.is fauk þak af íbúðarhúsi í Vestmannaeyjum í heilu lagi en vindurinn í bænum hefur náð fellibylsstyrk. Búið er að bjarga íbúum hússins út.
Uppfært kl. 20:02: Kastljós greindi frá því rétt í þessu að vindmælirinn á Stórhöfða væri fokinn.